Við göngustígagerð þarf oft að nota sama verklag og við torf- og grjóthleðslur. Hlaða þarf kanta úr grjóti og torfi þegar stígurinn er í miklum halla, þegar skera þarf stíg inn í hlíð eða þegar hækka þarf stíginn svo hann rísi upp úr landinu. Með því að notast við torf- og grjóthleðslur má ná fram náttúrulegu yfirbragði við stígagerðina sé notað efni af staðnum og þess er gætt að hleðslan sé ekki of regluleg.
Torfhleðslur má einnig nota við uppgræðslu á jarðvegsrofi og gróðurskemmdum.
Nokkur grunnatriði í grjóthleðslum má styðjast við og heimfæra yfir á göngustígagerð, þó svo að aðstæður geti verið aðrar og oft og tíðum erfiðari þegar unnið er við gerð göngustíga.
Mikilvægt er að undirbúa grunninn vel. Oft háttar þannig til að ekki er mögulegt að skipta um jarðveg á verkstað, en þá er mikilvægt að grafa grunnsteinana þannig að þeir halli vel inn þannig að þyngdaraflið ýti þeim inn í hleðsluna en ekki fram.
Ef mögulegt er að skipta um jarðveg og setja frostfrítt efni í undirlagið er það kostur, því frostverkun getur komið hreyfingu á hleðsluna.
Mikilvægt er að hafa góðan innhalla á hleðslunni til að fá þyngdarpunktinn inn í hleðsluna og minnka líkurnar á að veggurinn falli fram fyrir sig. Gott er að innihalli á vegg sé minnst 10%, en hann má vera mun meiri þegar kantar á göngustíg eru hlaðnir.
Best er að velja stóra steina í grunninn þar sem þeir bera uppi hleðsluna. Gott er að velja langa steina sem ná vel inn í hleðsluna og er langhliðin látin snúa inn í vegginn. Þykkari endi steinsins er látinn vísa fram og mjórri endinn inn í hleðsluna.
Uppröðun steina í hleðslunni skiptir miklu máli upp á burð að gera. Forðast skal að steinar myndi beinar línur á samskeytum og góð regla er að hver steinn hvíli að lágmarki á tveimur steinum.
Inn í kjarna hleðslurnar er sett fylling, helst möl eða grjót til þess að skorða steinana í veggnum, styðja við hleðsluna og koma í veg fyrir frostverkun.
Endahleðsla krefst þess að notaðir séu stærri steinar, helst flatir sem læsast saman. Hér er mikilvægt að forðast gegnumgangandi línur í hleðslunni og best er að láta þyngdaraflið vinna til þess að skorða steinana.
Þegar unnið er í miklum hliðarhalla, þar sem stígurinn sker brekkur, þarf að hlaða undir stíginn og ganga frá sneiðingum. Þegar skorið er í hlíð myndast sár sem þarf að ganga frá og græða upp. Til þess að koma í veg fyrir að hlíðin renni yfir stíginn er gott að gera grjóthleðslu sem heldur við jarðveginn fyrir ofan stíginn. Reyna skal að hafa vegginn ekki of formfastan, líkt og um hefðbundinn grjótvegg sé að ræða, heldur blanda saman torfi og grjóti og haga uppröðun steinanna þannig að þeir myndi náttúruleg form ef kostur er. Markmiðið er að torfið taki yfir og feli hleðsluna að miklu leyti.
Að sama skapi þarf að hlaða veggi til þess að styðja við stíginn að neðanverðu þar sem stígurinn sker hlíð. Mikilvægt er að hleðslan hafi góða fótfestu og að halli veggjarins sé í samræmi við landhalla.
Þegar hlaðnir eru kantar umhverfis stíginn er best að notast við efni af staðnum. Ef það er ekki í boði er best að nota veðraða steina og enn betra ef þeir eru grónir og mosavaxnir. Það ýtir undir þá upplifun að mannvirkið sé eldra en það er og sé orðið hluti af umhverfinu.
Torfhleðslur
Torfhleðslur nýtast oft vel í göngustígagerð, sérstaklega á friðlýstum svæðum þar sem ekki er leyft að flytja framandi gróðurtegundir inn á svæðið og þar af leiðandi ekki hægt að notast við aðflutt torf. Gott er að notast við torf af staðnum þar sem það kemur í veg fyrir innrás framandi tegunda á svæðinu og hjálpar til við að láta framkvæmdina falla inn í landslagið.
Grunngerðir torfhleðslu eru strengur, klambra, snidda og kvíahnaus. Einnig má blanda streng og sniddu við grjóthleðslur.
Strengur
Strengur er í laginu eins og þykk torfþaka, skorinn í stykki um 1–2 m á lengd og 5–10 cm á þykkt og um 50–60 cm á breidd. Hann er oft notaður á milli laga í torfhleðslu og einnig er hægt að nota hann í bland við grjót.
Klambra
Klambra er oft skorin um 20–25 cm þykk og 50–60 cm löng eða í tvö fet og þverfót samkvæmt gamalli hefð. Klömbruhleðsla sker sig úr öðrum torfhleðslugerðum þar sem 45° horn hnausanna mynda fiskibeinamynstur.
Kvíahnausar
Kvíahnausar eru skornir í sama lagi og kassi. Þeir eru oft notaðir á enda veggja og í endahleðslur, en þeir eru einnig notaðir í vegghleðslur þar sem þeim er raðað upp.
Snidda
Snidda er skorin þannig að hún myndar einskonar tígulform þar sem grashliðin er látin snúa út. Sniddur nýtast mjög vel í göngustígagerð þar sem auðvelt er að stinga þær nálægt verkstað og ganga frá sárinu án þess að skilja eftir nokkur ummerki. Það tryggir notkun staðargróðurs í framkvæmdinni og gefur stígnum náttúrulegra yfirbragð.
Sniddur eru stungnar með sama halla og veggurinn sem þær eru notaðar í og auðvelt er að blanda þeim saman við grjót í hleðslum. Sniddur má einnig nota í uppgræðslu á rofabörðum og í halla.
Torfhleðslur lúta sömu grunnlögmálum og grjóthleðslur hvað varðar grunn, innhalla og uppröðun.