2.4

Torf og grjót­hleðslur

Við göngu­stíga­gerð þarf oft að nota sama verklag og við torf- og grjót­hleðslur. Hlaða þarf kanta úr grjóti og torfi þegar stíg­urinn er í miklum halla, þegar skera þarf stíg inn í hlíð eða þegar hækka þarf stíginn svo hann rísi upp úr landinu. Með því að notast við torf- og grjót­hleðslur má ná fram nátt­úru­legu yfir­bragði við stíga­gerðina sé notað efni af staðnum og þess er gætt að hleðslan sé ekki of regluleg.

Torf­hleðslur má einnig nota við uppgræðslu á jarð­vegs­rofi og gróð­ur­skemmdum.

Nokkur grunn­atriði í grjót­hleðslum má styðjast við og heim­færa yfir á göngu­stíga­gerð, þó svo að aðstæður geti verið aðrar og oft og tíðum erfiðari þegar unnið er við gerð göngu­stíga.

Mikil­vægt er að undirbúa grunninn vel. Oft háttar þannig til að ekki er mögu­legt að skipta um jarðveg á verkstað, en þá er mikil­vægt að grafa grunn­steinana þannig að þeir halli vel inn þannig að þyngd­araflið ýti þeim inn í hleðsluna en ekki fram.

Innhalli hleðlsu um 10%
Innhalli hleðlsu um 10%

Ef mögu­legt er að skipta um jarðveg og setja frost­frítt efni í undir­lagið er það kostur, því frost­verkun getur komið hreyf­ingu á hleðsluna.

Mikil­vægt er að hafa góðan innhalla á hleðsl­unni til að fá þyngd­arpunktinn inn í hleðsluna og minnka líkurnar á að vegg­urinn falli fram fyrir sig. Gott er að inni­halli á vegg sé minnst 10%, en hann má vera mun meiri þegar kantar á göngu­stíg eru hlaðnir.

Best er að velja stóra steina í grunninn þar sem þeir bera uppi hleðsluna. Gott er að velja langa steina sem ná vel inn í hleðsluna og er lang­hliðin látin snúa inn í vegginn. Þykkari endi steinsins er látinn vísa fram og mjórri endinn inn í hleðsluna.

Uppröðun steina í hleðsl­unni skiptir miklu máli upp á burð að gera. Forðast skal að steinar myndi beinar línur á samskeytum og góð regla er að hver steinn hvíli að lágmarki á tveimur steinum.

Forðast skal að uppröðun steina myndi beinar línur
Forðast skal að uppröðun steina myndi beinar línur

Inn í kjarna hleðsl­urnar er sett fylling, helst möl eða grjót til þess að skorða steinana í veggnum, styðja við hleðsluna og koma í veg fyrir frost­verkun.

Enda­hleðsla krefst þess að notaðir séu stærri steinar, helst flatir sem læsast saman. Hér er mikil­vægt að forðast gegn­um­gang­andi línur í hleðsl­unni og best er að láta þyngd­araflið vinna til þess að skorða steinana.

Endahleðsla
Endahleðsla

Þegar unnið er í miklum hlið­ar­halla, þar sem stíg­urinn sker brekkur, þarf að hlaða undir stíginn og ganga frá sneið­ingum. Þegar skorið er í hlíð myndast sár sem þarf að ganga frá og græða upp. Til þess að koma í veg fyrir að hlíðin renni yfir stíginn er gott að gera grjót­hleðslu sem heldur við jarð­veginn fyrir ofan stíginn. Reyna skal að hafa vegginn ekki of form­fastan, líkt og um hefð­bundinn grjótvegg sé að ræða, heldur blanda saman torfi og grjóti og haga uppröðun stein­anna þannig að þeir myndi nátt­úruleg form ef kostur er. Mark­miðið er að torfið taki yfir og feli hleðsluna að miklu leyti.

Að sama skapi þarf að hlaða veggi til þess að styðja við stíginn að neðan­verðu þar sem stíg­urinn sker hlíð. Mikil­vægt er að hleðslan hafi góða fótfestu og að halli veggj­arins sé í samræmi við land­halla.

Stoðhleðslur
Stoðhleðslur

Þegar hlaðnir eru kantar umhverfis stíginn er best að notast við efni af staðnum. Ef það er ekki í boði er best að nota veðraða steina og enn betra ef þeir eru grónir og mosa­vaxnir. Það ýtir undir þá upplifun að mann­virkið sé eldra en það er og sé orðið hluti af umhverfinu.

Torf­hleðslur
Torf­hleðslur nýtast oft vel í göngu­stíga­gerð, sérstak­lega á frið­lýstum svæðum þar sem ekki er leyft að flytja fram­andi gróð­ur­teg­undir inn á svæðið og þar af leið­andi ekki hægt að notast við aðflutt torf. Gott er að notast við torf af staðnum þar sem það kemur í veg fyrir innrás fram­andi tegunda á svæðinu og hjálpar til við að láta fram­kvæmdina falla inn í lands­lagið.

Grunn­gerðir torf­hleðslu eru strengur, klambra, snidda og kvía­hnaus. Einnig má blanda streng og sniddu við grjót­hleðslur.

Strengur
Strengur er í laginu eins og þykk torf­þaka, skorinn í stykki um 1–2 m á lengd og 5–10 cm á þykkt og um 50–60 cm á breidd. Hann er oft notaður á milli laga í torf­hleðslu og einnig er hægt að nota hann í bland við grjót.

Strengur
Strengur
Strengur
Strengur
Grjót og strengur
Grjót og strengur

Klambra
Klambra er oft skorin um 20–25 cm þykk og 50–60 cm löng eða í tvö fet og þverfót samkvæmt gamalli hefð. Klömbru­hleðsla sker sig úr öðrum torf­hleðslu­gerðum þar sem 45° horn hnaus­anna mynda fiski­beina­mynstur.

Klambra
Klambra
Klömbruhleðsla
Klömbruhleðsla

Kvía­hnausar
Kvía­hnausar eru skornir í sama lagi og kassi. Þeir eru oft notaðir á enda veggja og í enda­hleðslur, en þeir eru einnig notaðir í vegg­hleðslur þar sem þeim er raðað upp.

Kvíahnaus
Kvíahnaus
Kvígahnausar
Kvígahnausar

Snidda
Snidda er skorin þannig að hún myndar einskonar tígul­form þar sem grashliðin er látin snúa út. Sniddur nýtast mjög vel í göngu­stíga­gerð þar sem auðvelt er að stinga þær nálægt verkstað og ganga frá sárinu án þess að skilja eftir nokkur ummerki. Það tryggir notkun stað­ar­gróðurs í fram­kvæmd­inni og gefur stígnum nátt­úru­legra yfir­bragð.

Sniddur eru stungnar með sama halla og vegg­urinn sem þær eru notaðar í og auðvelt er að blanda þeim saman við grjót í hleðslum. Sniddur má einnig nota í uppgræðslu á rofa­börðum og í halla.

Snidda
Snidda

Torf­hleðslur lúta sömu grunn­lög­málum og grjót­hleðslur hvað varðar grunn, innhalla og uppröðun.