Við gerð hraunstíga þarf að byrja á að meta aðstæður og velja bestu mögulegu legu stígsins. Hraun geta verið illfær og hættuleg. Skoða þarf hvaða leið hentar best með tilliti til öryggis og upplifunar vegfarenda og hvar landinu verður raskað sem minnst. Ekki er gott að leggja stíginn í lægðir sem í safnast snjór og vatn. Ef ekki er hjá því komist er hægt að nota grjót úr hrauninu til þess að hlaða undir stíginn og lyfta honum lítið eitt upp úr landinu.
Oftast er lítið af lífrænum jarðvegi að finna í hraunum og þar sem bergið er gljúpt og hleypir vatni auðveldlega í gegnum sig ætti að vera hægt um vik að leggja vel færan stíg um hraun án þess að hrófla um of við umhverfinu.
Þar sem mikil umferð hefur verið í gegnum hraun er líklegt að viðkvæmur mosi hafi skemmst. Vinnan við að leggja stíg getur því jafnt eins snúist um að græða upp mosa á röskuðu landi. Uppgræðslan kemur í veg fyrir frekara rask á svæðinu og ýtir undir að ferðamenn fylgi afmörkuðum stígum.