Vel gerðir göngustígar og reglulegt viðhald gönguleiða gegna lykilhlutverki við að verja landið fyrir skemmdum og stuðla að sjálfbærri ferðamennsku.
Útivist og ferðaþjónusta hefur stóraukist á Íslandi á fáum árum. Íslensk náttúra hefur mikið aðdráttarafl og býður upp á fjölbreytta ferðamennsku og þjónustu. Aukinni umferð fylgir aukið álag á landið, ekki síst á gönguleiðir, sem getur valdið skemmdum á landinu. Íslenskur jarðvegur og gróður er sérlega viðkvæmur fyrir átroðningi og rofhætta mikil í álagsflötum.
Ýmislegt þarf að hafa í huga við hönnun og gerð gönguleiða. Meðal þess er verndargildi staðar, náttúru eða menningarminja, og ferðahegðun. Fjölsóttir ferðamannastaðir í alfaraleið þar sem gera má ráð fyrir ferðafólki með mismunandi þarfir geta kallað á umfangsmikla göngustíga til að anna þeirri umferð fólks sem sækir staðinn heim. Á fáfarnari áfangastöðum og leiðum utan alfaraleiðar er ekki þörf á umfangsmiklum mannvirkjum heldur lágstemmdari og náttúrulegri nálgun við gerð göngustíga – náttúrustíga.
Náttúrustígar byggja á aðferðum við göngustígagerð sem eiga sér langa og þekkta sögu. Hönnun þeirra byggir á land- og vistlæsi, þekkingu á staðnum og staðarandanum, nærtækum efniviði til stígagerðarinnar, og handverki. Náttúrustígum er ætlað að falla að landslaginu og vinna með landinu við að greiða leið og tryggja öryggi, en um leið græða landið. Jafnframt eiga þeir að styðja við og stuðla að náttúruupplifun.
Gerð leiðbeininga um náttúrustíga á sér uppruna í stefnumarkandi landsáætlun íslenskra stjórnvalda um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Fyrir tilstuðlan áætlunarinnar var skipaður samstarfshópur um aukna fagþekkingu og bætta hönnun á ferðamannastöðum sem skipuðu helstu opinberu aðilar um náttúruvernd og ferðamennsku. Leiðbeiningar um gerð náttúrustíga eru ein af afurðum þessa samstarfs, útgefnar af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Leiðbeiningunum er ætlað að vera leiðsögn fyrir hvern þann sem fæst við göngustígagerð. Jafnframt eru leiðbeiningarnar stefnumarkandi fyrir skipulag og hönnun á ferðamannastöðum á Íslandi þar sem það á við og gert ráð fyrir að þær séu hafðar til hliðsjónar við stefnumótun og skipulag fyrir svæði og staði í umsjón ríkisins, svo sem friðlýst svæði og þjóðgarða.
Á bak við handbók um náttúrustíga eru aðilar með mikla reynslu af gerð stíga hér á landi.
Gunnar Óli Guðjónsson | Landslagsarkitekt | www.stokkarogsteinar.com |
Davíð Arnar Stefánsson | Sérfræðingur, Landgræðslan | www.landgraedslan.is |
Inga María Brynjarsdóttir | Myndlistamaður | www.behance.net/ingamaria |