1

Inngangur

Vel gerðir göngu­stígar og reglu­legt viðhald göngu­leiða gegna lykil­hlut­verki við að verja landið fyrir skemmdum og stuðla að sjálf­bærri ferða­mennsku.

Útivist og ferða­þjón­usta hefur stór­aukist á Íslandi á fáum árum. Íslensk náttúra hefur mikið aðdrátt­arafl og býður upp á fjöl­breytta ferða­mennsku og þjón­ustu. Aukinni umferð fylgir aukið álag á landið, ekki síst á göngu­leiðir, sem getur valdið skemmdum á landinu. Íslenskur jarð­vegur og gróður er sérlega viðkvæmur fyrir átroðn­ingi og rofhætta mikil í álags­flötum.

Ýmis­legt þarf að hafa í huga við hönnun og gerð göngu­leiða. Meðal þess er vernd­ar­gildi staðar, náttúru eða menn­ing­ar­minja, og ferða­hegðun. Fjöl­sóttir ferða­mannastaðir í alfara­leið þar sem gera má ráð fyrir ferða­fólki með mismun­andi þarfir geta kallað á  umfangs­mikla göngu­stíga til að anna þeirri umferð fólks sem sækir staðinn heim. Á fáfarnari áfanga­stöðum og leiðum utan alfara­leiðar er ekki þörf á umfangs­miklum mann­virkjum heldur lágstemmdari og nátt­úru­legri nálgun við gerð göngu­stíga – nátt­úru­stíga.

Nátt­úru­stígar byggja á aðferðum við göngu­stíga­gerð sem eiga sér langa og þekkta sögu. Hönnun þeirra byggir á land- og vist­læsi, þekk­ingu á staðnum og stað­ar­and­anum, nærtækum efni­viði til stíga­gerð­ar­innar, og hand­verki. Nátt­úru­stígum er ætlað að falla að lands­laginu og vinna með landinu við að greiða leið og tryggja öryggi, en um leið græða landið. Jafn­framt eiga þeir að styðja við og stuðla að nátt­úru­upp­lifun.

Gerð leið­bein­inga um nátt­úru­stíga á sér uppruna í stefnu­mark­andi landsáætlun íslenskra stjórn­valda um uppbygg­ingu innviða til verndar náttúru og menn­ing­ar­sögu­legum minjum. Fyrir tilstuðlan áætl­un­ar­innar var skip­aður samstarfs­hópur um aukna fagþekk­ingu og bætta hönnun á ferða­manna­stöðum sem skipuðu helstu opin­beru aðilar um nátt­úru­vernd og ferða­mennsku. Leið­bein­ingar um gerð nátt­úru­stíga eru ein af afurðum þessa samstarfs, útgefnar af umhverfis- og auðlinda­ráðu­neytinu í samstarfi við atvinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neytið.

Leið­bein­ing­unum  er ætlað að vera leið­sögn fyrir hvern þann sem fæst við göngu­stíga­gerð. Jafn­framt eru leið­bein­ing­arnar stefnu­mark­andi fyrir skipulag og hönnun á ferða­manna­stöðum á Íslandi þar sem það á við og gert ráð fyrir að þær séu hafðar til hlið­sjónar við stefnu­mótun og skipulag fyrir svæði og staði í umsjón ríkisins, svo sem frið­lýst svæði og þjóð­garða.


1.1Aðilar Náttúrustíga#1.1-adilar-natturustiga

Á bak við handbók um nátt­úru­stíga eru aðilar með mikla reynslu af gerð stíga hér á landi.

Gunnar Óli GuðjónssonLandslagsarkitekt www.stokkarogsteinar.com
Davíð Arnar Stefánsson Sérfræðingur, Landgræðslan www.landgraedslan.is
Inga María Brynjarsdóttir Myndlistamaður www.behance.net/ingamaria