2.1

Hönnun göngu­stíga

Áður en fram­kvæmdir við stíga­gerð hefjast þarf að meta ástand svæð­isins. Mikil­vægt er að huga að því hvernig fram­kvæmdir falla að heild­ar­skipu­lagi svæð­isins og hvort þær samræmist öðrum áformum.


2.1.1Skipulag — greiningar#2.1.1-skipulag-greiningar

Hafa ber í huga að í göngu­stíga­gerð er ekki til nein ein lausn sem virkar alls staðar. Hver staður hefur sína lausn og það er hönnuðar og þeirra sem vinna við verkið að átta sig á hvað á best við á hverjum stað.

Þegar búið er að greina aðstæður þarf að huga að hönnun göngu­stígsins. Meta þarf hvernig stíg­urinn á að liggja í landinu þannig að hann sé sem best varinn gegn roföflum, að hann sé þægi­legur til göngu og falli eins vel að landinu og kostur er. Best er að stíg­urinn liggi ekki í of miklum bratta. Gott er ef hægt er að láta stíginn liggja í hallandi bugðum svo hækk­unin sé jöfn og þægileg. Ef malar­stígur liggur í meira en 12° halla þarf að brjóta hann upp með þrepum eða vatns­leið­urum og ef hallinn er meira en 15° er rofhættan orðin það mikil að leggja verður þrep. Æski­legt er að notast við land­halla­mæli til að vera viss um að stíg­urinn liggi ekki í of miklum halla. Forðast skal endur­tekn­ingar í legu stígsins svo það verði ekki leiði­gjarnt að ganga eftir honum og takmarka beinar línur sem skera sig frá umhverfinu.

Ef göngu­stígur er þegar fyrir hendi þarf ekkert endi­lega að vera að hann liggi á réttum stað. Meta þarf ástand hans og hvernig hann hefur þolað rof. Ef stígur liggur í erfiðu landi getur það verið til bóta að færa hann á annan stað til þess að lækka fram­kvæmda­kostnað og minnka viðhalds­þörf hans í fram­tíð­inni.

Að undan­geng­inni grein­ingu á vatnafari á svæðinu er hægt að ákvarða stað­setn­ingu og fjölda ræsa við stíginn. Einnig þarf að huga að því hvernig komið er böndum á flæði vatns utan stígs með ræsis­skurðum meðfram stígnum.

Þegar ákvarða á legu göngu­stígsins þarf alltaf að velta fyrir sér hvernig tilfinning það er að ganga eftir honum. Mikil­vægt er að það sé gott útsýni af stígnum til þeirra staða á svæðinu sem hafa mest aðdrátt­arafl, svo framar­lega sem aðstæður leyfa. Ef fólk sér ekki það sem það vill helst sjá af stígnum mun það fara út fyrir hann og þá myndast villu­stígar sem erfitt getur verið að hemja. Röng lega á göngu­stígum gerir þeim ógagn sem nota stígana, gerir upplif­unina af svæðinu fátæk­legri, eykur á rofhættu og stuðlar að villu­stígum.


2.1.2Upplifunarhönnun#2.1.2-upplifunarhonnun

Stíg­urinn þarf að falla að lands­laginu og má ekki virka sem aðskota­hlutur í landinu. Það reynir á hönnuð að ákvarða legu hans þannig að hann sé fallegur. Þegar best tekst til er eins og hann hafi alltaf verið þarna.

Þegar kemur að efnis­vali við gerð nátt­úru­stíga er höfuðmál að skoða umhverfi þeirra vand­lega. Til þess að ná fram nátt­úru­legu yfir­bragði er mikil­vægt að efnið í stígnum og umhverfi hans séu í sem bestu samræmi. Best er að notast við efni af staðnum. Hins vegar er það ekki alltaf raun­hæfur kostur þar sem efnistaka í nágrenni stígsins getur skilur eftir ljót sár og raskað vist­kerfum á svæðinu. Ef notast er við efni úr námu þarf að horfa í hvernig litir og áferð ríma við umhverfi svæð­isins og reyna eftir fremsta megni að finna sams­konar efni og er í nágrenni stígsins. Þegar velja á grjót í fram­kvæmdina er kostur að sams­konar grjót finnist í umhverfinu og best er að velja veðraða steina. Ef þörf er á að flytja torf á verkstaðinn ber að skoða flóru svæð­isins og reyna að útvega torf með tegunda­sam­setn­ingu sem svipar til þeirrar sem er á staðnum. Forðast skal að flytja þangað fram­andi og ágengar tegundir.

Ef trjá­gróður er í umhverfinu er eðilegt að nota timbur við gerð stígsins, en ef komið er upp fyrir trjálínu er á engan hátt æski­legt að timbur sé nýtt við stíga­gerðina. Sama má segja um hraun­steina í skóg­lendi þar sem ekkert grjót er að finna og svo fram­vegis. Hönn­uður þarf að meta hvaða efni hentar í stíginn þannig að hann samræmist umhverfi sínu án þess að það komi niður á gæðum verksins.

Hönnun göngu­stíga fer að mestum hluta fram á verkstað. Til þess að átta sig sem best á öllum smáat­riðum sem snúa að hönnun göngu­stíga er best að sjá þau út á staðnum. Gott er að notast við ákveðnar lands­lagseindir eins og stóra steina til að brjóta upp stíginn með því að láta hann hlykkjast meðfram og upp að þeim.

Stígur lagður í of kröppum beygjum
Stígur lagður í of kröppum beygjum
Stígur lagður í aflíðandi sveig
Stígur lagður í aflíðandi sveig

Þegar lega stígs er ákveðin á loft­mynd fjarri staðnum er hætt við að stíg­urinn missi mikil­væga teng­ingu við umhverfi sitt. Þá verður erfiðara að ná fram nátt­úru­legu yfir­bragði hans.

Það er til mikilla bóta ef mögu­legt er að leggja stíginn þannig að hann myndi hring­leið. Það dreifir álaginu og þeir sem fara um stíginn skynja sterkar víðáttur landsins og nálægð nátt­úr­unnar þar sem hring­leiðir draga úr tvístefnu­um­ferð.

Huga þarf að öryggi þeirra sem fara um stíginn. Ganga þarf úr skugga um að undirlag sé stöðugt, sérstak­lega ef unnið er í miklum halla eða brúnir eru brattar. Þrep þurfa að vera í réttum hlut­föllum með tilliti til þrepa­formúlu til að auðvelda göngu og auka öryggi.

Þrepaformúla
Þrepaformúla

Huga þarf að fjölda þeirra sem fara um stíginn og hverjir það eru. Ef mögu­legt er ber að tryggja aðgengi fyrir alla, en það er þó vand­kvæðum bundið þar sem þrep eru nauð­synleg og þar sem stíg­urinn liggur í bröttu landi. Breidd stígsins þarf að taka mið af fjölda notenda. Við gerð nátt­úru­stíga er fyrsta boðorðið að raska landinu eins lítið og hægt er. Þess verður þó að gæta að vanmeta ekki fjölda notenda þannig að stíg­urinn verði of mjór. Þá fer fólk að ganga utan með honum og kant­arnir rofna. Einnig þarf að meta hvort mögu­legt sé að fjöldi þeirra sem nota stíginn aukist eftir að fram­kvæmdum lýkur þar sem svæðið verður þá orðið aðgengi­legra.

Ef hjól­reiða­menn og hesta­menn koma til með að nota stíginn þarf að gera ráð fyrir slíku á hönn­un­arstigi. Hönn­unin tekur þá mið af því hvað varðar breidd stígsins, halla hans, gerð aðgengi­legra ræsa og fjölda þrepa.