Eitt það allra mikilvægasta í göngustígagerð er að verja mannvirkin fyrir vatnsaga. Markmiðið er að ná yfirborðsvatni af stígnum sem allra fyrst og ná að stýra flæði þess. Stór hluti af göngustígagerð snýst um að sporna við vatnsrofi. Það getur verið mjög kostnaðarsamt að huga ekki nógu vel að ræsum því vatn getur eyðilagt heilan stíg á stuttum tíma.
Vatn sem hefur áhrif á göngustíga er ýmist regnvatn sem fellur á stíginn, snjóbráð í leysingum, yfirborðsvatn frá landinu í kring sem rennur yfir stíginn og vatn í jarðvegi.