Þar sem stígur liggur í miklum halla er oft óhjákvæmilegt að leggja þrep. Nokkrar mismunandi leiðir eru mögulegar til þess að brúa hæðarmun. Leggja má grjótþrep, steinlögn eða timburþrep.
Þegar leggja þarf göngustíg í halla er reynt eftir fremsta megni að haga legu hans þannig að sem fæst þrep séu í honum. Það er mikil vinna að leggja þrep og fólk vill helst ekki nota þau ef það kemst hjá því. Þegar halli landsins er kominn yfir 8°, eða í um 12–15%, er hætta á að yfirborðsefnið fari að renna til í stígnum. Það sem ræður úrslitum um hve mikinn halla stígur þolir er hversu gott efni er í honum, hversu vel það binst saman og hversu berskjaldaður stígurinn er fyrir vatnsrofi.
Hægt er að styrkja brattan stíg með því að setja niður akkerissteina. Það er gert með því að leggja stóra steina í beinni röð eða línu sem þverar stíginn. Steinarnir eru lagðir það vel og djúpt að þeir geti ekki haggast og þannig styðja þeir við malarefnið fyrir ofan. Hægt er að nota þessa aðferð sem viðhaldslausn ef yfirborðsefni fer að renna til í göngustíg í halla.
Akkerissteina má nota í stígum sem liggja í um 8°–16° halla (15–30%), en þar sem yfirborðsefni binst ekki vel gæti þurft að nota slíka lausn allt niður í 5° halla. Því meiri sem hallinn er því styttra skal vera á milli steinaraða eins og sést í meðfylgjandi töflu.
Halli í gráðum | Bil á milli lína | |
---|---|---|
Lítill | 8 – 10° | 10 – 15 m |
Miðlungs | 10 – 12° | 5 – 10 m |
Mikill | 12 – 14° | 3 – 5 m |
Steinunum er sökkt djúpt í jörðu svo yfirborð þeirra nær rétt yfir malaryfirborð stígsins. Í sumum tilfellum gæti þurft að notast við tvöfalda röð af steinum til þess að styrkja viðnám þeirra enn frekar.
Steinaröðin þarf að liggja þvert yfir allan stíginn. Ef svæði eða blettur eru skilin eftir mun myndast þar rofsár. Gæta þarf þess að steinarnir séu nógu stórir og það vel skorðaðir að þeir geti ekki haggast og að þeir þoli þrýsting frá stígnum að ofanverðu, sem og gangandi umferð.
Þrep eru notuð þar sem þarf að brúa mikinn hæðarmun á stuttum tíma. Þau geta leyst vandamál þar sem mikið rof hefur skapast, en ef ekki er vandað til verka getur rofið fljótt farið í fyrra horf. Fólki getur fundist óþægilegt að nota þrep og leitast oft við að ganga við hliðina á þeim ef það er möguleiki. Við það myndast rofrönd við hliðina á stígnum sem síðan verður að vatnsleiðara, sem á endanum skemmir stíginn. Huga þarf sérstaklega vel að uppbyggingu kanta beggja megin við þrepin til þess að ramma þau inn og koma í veg fyrir að gengið sé utan þeirra.
Þrep þurfa að vera eins þægileg í göngu og kostur er og taka verður til greina að það er ekki eins að ganga upp og niður þrep. Ef hlutfall milli uppstigs og innstigs er óreglulegt verður göngutakturinn óþægilegur og það getur hvatt notendur stígsins enn frekar að leita út fyrir stíginn. Til þess að tryggja góðan takt í þrepagerð er þrepaformúlan höfð til hliðsjónar, en hún kveður á um að tvö uppstig og eitt framstig sé um 650 mm með 50 mm skekkjumörkum.
Reynt skal eftir fremsta megni að halda þessum hlutföllum, en við uppbyggingu náttúrustíga getur verið erfitt að halda þessu fullkomlega þar sem það byggingarefni sem er í boði getur verið margbreytilegt í laginu. Einnig skal forðast að hafa þrepin of formföst, þannig að þau virki ekki eins og aðskotahlutur í landslaginu.
Við lagningu þrepa skal byrja neðst og ganga úr skugga um að fyrsti steinninn sé vel skorðaður og honum sé sökkt niður, en hann mun halda við næstu þrep. Mikilvægt er að staðsetja þrepin rétt í landinu. Fyrsta þrepið ætti að vera þar sem landið byrjar að hækka. Ef fyrsta þrepið er staðsett of ofarlega í brekkunni mun yfirborðsefni stígsins skolast burt og grafa undan þrepunum.
Nokkrar leiðir eru til að byggja upp steinþrep. Hægt er að leggja þau hvert ofan á annað, eða skorða þau fyrir aftan hvert annað. Lykilatriðið er að þrepin liggi upp að hvert öðru og þrýstist saman til að mynda samtengda heildarstoð.
Ef þrepin eru látin liggja hvert á öðru þarf að huga að því að þyngdarpunkturinn sé á aftari hluta þrepsins sem þrýstist niður í jarðveginn.
Ef þyngdarpunkturinn er framarlega er hætt við að þrepin skorðast ekki nægilega og renni fram.
Þrep sem eru skorðuð fyrir aftan hvert annað eru oftast stöðugri og endingarbetri.
Vandasamt getur verið að leggja einföld þrep í brekkur. Ef frágangur á þeim er ekki nógu góður er mikil hætta á að vatn nái að ryðja sér leið meðfram þeim og mynda rof. Öruggara er að leggja 2–3 þrep saman og hafa svo hallandi flöt á milli.
Mikilvægt er að ganga vel frá köntum stígsins og þrepanna og tryggja að vatn komist út af stígnum sem fyrst.
Mikilvægt er að nota stóra steina í þrep og ganga frá þeim þannig að þeir geti ekki hreyfst, en margvísleg öfl verka á steinana sem geta auðveldlega fært þá til ef ekki er vandað nóg til verka.
Gera þarf ráð fyrir vatnshalla á þrepunum til að koma í veg fyrir vatnssöfnun og rof.
Þegar lega þrepa er ákvörðuð er best að forðast beinar línur, gott er að leggja þrepin í sveig, en þó ekki of marga og of krappa, því það eykur líkurnar á að fólk stytti sér leið og myndi beina roflínu í brekkuna. Einnig skal forðast einsleitni og endurtekningar. Gott er að reyna að koma fyrir hvíldarþrepum í miklum bratta til að auðvelda göngu.
Steinlögn (e. pitcing) getur hentað sem lausn þar sem stígur liggur í miklum bratta og þar sem mikið grjót er í nágrenninu.
Í steinlögn er notast við mismunandi stærðir af grjóti og því stungið niður og raðað upp á óreglulegan hátt þannig að steinarnir myndi óslitinn flöt. Steinlögn virkar eins og millivegur milli malarstígs og þrepa, þar sem hver steinaröð er lögð með ákveðinni hækkun, þó ekki meira en 150 mm.
Neðstu steinarnir eru stórir og burðugir og halda við næstu raðir. Einnig eru notaðir stórir steinar við ytri mörk stígsins. Steinunum er stungið niður þannig að hálfur steinninn sé að minnsta kosti grafinn niður, en því lengra sem hann nær niður því styrkari verður hann sem stoð.
Hver steinn er vel skorðaður og mikilvægt að pakka möl og smærri steinum í kringum alla steina til að tryggja að þeir séu sem stöðugastir. Mikilvægt er að steinarnir myndi góðan flöt til þess að ganga á og forðast skal að samskeyti steinanna myndi beinar og gegnumgangandi línur.
Inn í steinlögnina þarf að gera ráð fyrir ræsum á viðeigandi stöðum sem koma í veg fyrir að vatn renni eftir stígnum sjálfum.
Samræmi ætti að vera í hallanum á stígnum og ætti hann að vera í samræmi við yfirborð umhverfisins. Þó gæti þurft að lyfta stígnum hærra en landið í einhverjum tilfellum. Ganga þarf frá köntum og þurfa þeir að vera hærri en stígurinn til að koma í veg fyrir að gengið sé utan hans.
Einnig er hægt að leggja göngustíg úr náttúruhellum, sérstaklega ef samskonar grjót er að finna í umhverfinu. Mikilvægt er að notast við stórar og þykkar hellur og tryggja að þær séu vel festar og stöðugar. Jarðvegsskipt er undir stíginn, grafinn er skurður sem afmarkar legu stígsins og malarlag sett undir áður en hellurnar eru lagðar. Gæta þarf þess að ekki sé of langt á milli hellna ef um stiklur er að ræða til að forðast rof á gróðurþekju.