Litirnir í merkingakerfinu eiga að falla vel að náttúru landsins, vera áberandi en um leið ekki of frekir og átroðslusamir. Þeir eiga að vera í sátt og samlyndi við umhverfið.
Fjórir grunn-litir eru í boði í Vegrúnu:
Þegar skilti er skipulagt, og jafnvel svæði í heild, skal velja einn lit af þessu grunnvali. Þetta er liturinn sem er notaður sem bakgrunnur skiltisins. Hann er þá einnig notaður í skó þess og skrúfur.
Litirnir hafa verið valdir og skilgreindir með hámarks læsileika í huga. Andstæðir litir raðast saman í samsetningum sem hafa verið mældar með nútímaþarfir og skýrleika að markmiði.
Við hvetjum notendur til að nota ekki hreinan svartan eða hvítan í neinum merkingum, þar sem þeir eru mjög ónáttúrulegir í merkingum undir beru lofti — og óþarflega áberandi og nánast eins og endurskin í sumum tilfellum.
Ekki er gert ráð fyrir að blanda grunnlitum innan skilta, að undanskildum öryggislitunum, sem eru hugsaðir til að skera sig úr restinni af skiltinu og vekja skýrari athygli á þeim hluta skiltisins.
Valið um hvort nota skuli dökkan eða ljósan grunn byggir á því að ýmist er ætlunin að leyfa merkingunum að skera sig úr umhverfinu eða falla vel að því.
Í umhverfi eins og á Þingvöllum, í Almannagjá, er bergið allsráðandi og almennt frekar dökkt yfirlitum. Dökk skilti þar falla vel inn í umhverfið og trufla minna upplifun gesta af umhverfinu. Ljós skilti þar myndu skera sig frá því sem fyrir augu ber og draga athyglina að þeim. Þetta val um hvort hentar betur er því sett í hendur umsjónarmanns merkinganna.
Dökku litirnir líta við fyrstu sýn út fyrir að vera keimlíkir, og er það með vilja gert. Notkunin á þeim öllum þremur er sú sama í grundvallaratriðum en þeir henta misvel fyrir aðstæður.
Ljósi liturinn er aðeins einn. Hann er valinn með það í huga að virka vel sem textalitur á móti öllum dökku tónunum þremur og vinnur vel með þeim öllum. Með því að velja ljós skilti í grunninn verða þau bjartari yfirlitum og í flestum tilfellum verða þau áberandi í náttúrunni.
Móberg
Sækir í liti hálendisins með söndum sínum og móbergshnúkum. Liturinn er brún-rauðleitur og óneitanlega með miklum jarðtón.
Mosi
Dökkgrænn liturinn hentar vel í skógivaxið umhverfi, þar sem græni liturinn býr til notalegan ramma um upplýsingarnar á skiltinu.
Grágrýti
Með sinn blá-gráa lit tónar liturinn vel við klettaveggi stuðlabergs og hrauns. Að sumu leyti fágaðasti liturinn í litaröðinni. Hentar vel þar sem vilji er til að vera hlutlausari í litavali.
Ull
Á móti dökkum litamöguleikum er stillt upp ljósum, hlýjum lit ullarinnar. Liturinn fer vel sem mótsvar á móti öllum dökku grunnlitunum og er notaður sem textaletur á þeim.
Einnig má víxla skiltunum og gera þau ullarljós og þá er notast við Móberg í texta og upplýsingar á skiltin.
Auk grunnlitanna eru tveir öryggislitir skilgreindir í kerfinu, sérstaklega notaðir til að vekja meiri athygli áhorfandans þar sem er þörf á að benda á öryggisþætti.
Brennisteinn
Hugsaður sem grunn-öryggisliturinn til að draga athygli gesta sérstaklega að heilum skiltum, eða hluta þeirra. Á slíkum skiltum eru tíundaðir öryggisþættir sem eru mikilvægir á slíkum stað.
Kvika
Viðbótarlitur með Brennisteininum, notaður til að merkja sérstaklega boð og bönn.
Í heimi Vegrúnar rúmast nánast allir litirnir undir sólinni, nema sérstaklega er hvatt til þess að nota ekki hreinan svartan eða hvítan — þar sem þeir skera sig óþarflega úr náttúrunni og virka nánast eins og endurskin í samhenginu við hana.
Aðra liti má síðan finna í t.d. kortum, einstaka þjónustumyndmerkjum (t.d. bílastæðamerkingar) og víðar. Teikningar og ljósmyndir færa svo allt litrófið inn í skiltin og auka dýpt skiltanna.
Allir litirni eru hér gefnir upp í bæði CMYK og RGB litaútgáfum, auk RAL gildis. Mikilvægt er að passa að rétt litagildi sé notað eftir framleiðslu.
CMYK
Prentlitir, sem eru ávallt notaðir þegar framleidd eru skilti og send til framleiðslu (nema framleiðandinn óski sérstaklega eftir skilum á aðra vegu).
RGB
Skjálitir, sem á aðeins að nota til að sýna litina rétt á skjám. Þessi gildi má t.d. nota þegar útbúin eru skilti, kort og fleira sem notast á við á vefsvæðum eða merkingar í upplýsingaskjái.
RAL
Þegar ætlunin er að sprauta eða mála hluti í réttum litum, skal notast við RAL litagildin. Skór og skrúfur Vegrúnar eru dæmi um einingar sem eru framleiddar eftir þessum litagildum.
Öll skjöl sem eru sótt í Vegrúnu koma almennt í bæði CMYK og RGB útgáfum og því nauðsynlegt að passa að rétt útgáfa sé notuð hverju sinni.
Hér má sækja .cclibs skjal sem inniheldur bæði CMYK og RGB litagildi Vegrúnar, til notkunar í Adobe forrita svítunni.
Skjalið er CC Library skjal og var búið til í útgáfu 16 af Adobe Creative Suite.