Sérstakt letur, Stika Sans, hefur verið teiknað fyrir merkingakerfið og má sækja það og nota gjaldfrjálst fyrir verkefni í þessu kerfi. Athugið að ekki er heimilt að nota letrið fyrir önnur verkefni en merkingar í þessu kerfi.
Þegar leturgerð er valin fyrir skilti og merkingar ber að hafa ákveðna þætti í huga sem eru nokkuð frábrugðnir öðrum verkefnum, svo sem ásýndar- eða umbrotsverkefnum. Letrið þarf að vera vel læsilegt úr töluverðri fjarlægð, úr mismunandi áttum og oft við erfið skilyrði. Einnig skiptir máli að letrið sé fallegt og þægilegt aflestrar.
Letrið hefur verið teiknað með öllum nútímatáknum svo hægt sé að nota það fyrir öll tungumál sem styðjast við latneskt letur. Letrið var einnig pófað með tilliti til læsileika út frá fjarlægð, andstæðra litasamsetninga og í úttekt tengt sjónskertum.
Letrið hefur verið smíðað og stillt til að henta merkingakerfinu sem best. Því er óþarfi fyrir umbrotsaðila skilta að stilla letrið sérstaklega í notkun.
Letrið hefur verið smíðað og stillt til að henta merkingakerfinu sem best. Því er óþarfi fyrir umbrotsaðila skilta að stilla letrið sérstaklega í notkun.
Allar upplýsingar í Vegrúnu eru ætlaðar til framsetningar á íslensku og ensku. Til að tryggja skýra framsetningu og aðgreiningu tungumálanna var Stika Sans teiknuð í tveimur þykktum, SemiBold fyrir Íslensku og Regular fyrir ensku.
Eftirfarandi stærðir eru skilgreindar fyrir notkun í merkingakerfið. Mikilvægt er að halda sig við gefnar stærðir, þar sem þær hafa verið skilgreindar út frá hæfilegri lestrarfjarlægð.
CAP hæð | Leturstærð | Línuhæð | Fjarlægð | |
---|---|---|---|---|
Fyrirsögn 1 | 37 mm | 150 pt | 187 pt | 18 m |
Fyrirsögn 2 | 30 mm | 120 pt | 150 pt | 14 m |
Fyrirsögn 3 | 25 mm | 100 pt | 125 pt | 11 m |
Texti 1 | 16 mm | 60 pt | 84 pt | 8 m |
Texti 2 | 11 mm | 42 pt | 58 pt | 5 m |
Texti 3 | 7,5 mm | 30 pt | 42 pt | 3 m |
Texti 4 | 5 mm | 20 pt | 28 pt | 1 m |
Skýringar
CAP hæð | Raunhæð á stóru A í mm |
Leturstærð | Leturstærð í punktum (Font size) |
Línuhæð | Hæð leturlínu (Leading). Hlutfall línuhæðar í lestextum er 1,4 og í fyrirsögnum 1,25 |
Fjarlægð | Áætluð lágmarks fjárlægð læsis |
Ekki er leyfilegt að minnka eða stækka letrið til að „búa til meira eða minna pláss“ fyrir framsetningu efnis. Efni skal vera samið til að falla að gefnum plötustærðum og plötur skulu valdar eftir magni leturs.
Stika Sans var smíðað úr letrinu Gata Sans, sem var lokaverkefni Simons Viðarsonar úr Listaháskóla Íslands vorið 2020.
Fjallað var um fæðingarferli Stika Sans í grein á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Letrið Stika Sans má sækja hér að neðan til notkunar, öllum að kostnaðarlausu. Aðeins er leyfilegt að nota letrið til uppsetningar á merkingum innan Vegrúnar. Nánari skilmála má lesa við niðurhal, sem krafa er að samþykkja.