Öryggi ferðamanna í íslenskri náttúru er gífurlega mikilvægur þáttur. Vegrún var því hönnuð með sérstaklega mikinn sveigjanleika í huga þegar það kemur að framsetningu öryggisþátta.
Það verður líklegast aldrei hægt að gera íslenska náttúru algjörlega örugga fyrir gestunum í náttúrunni, en við getum gert margt til að stuðla að þessu öryggi. Góðar merkingar eru þar mikilvægt verkfæri sem ber að nota vandlega.
Öryggismerkingar eru því mikilvægur hluti af Vegrúnu og eru þær settar fram á sama máta og allt annað í kerfinu — sem mátkerfi. Það þýðir að búið er að skilgreina grunn einingarnar sem þarf til að öryggismerkja staði, ss. liti, myndmerki og hvernig og hvar merkingarnar eru settar fram, en það er á ábyrgð þeirra sem setja upp skiltin hvað stendur á þeim og hvar þau eru sett.
Öryggismerkingarnar byggja á sama útlitsgrunni og allt annað innan Vegrúnar. Sömu skilti, stærðir og leturframsetningar.
Aðgreiningin liggur fyrst og fremst í litanotkun á öryggismerkingunum. Öll almenn skilti í Vegrúnu notast við einn af fjórum grunnlitum; Móberg, Mosi, Grágrýti eða Ull. Allir hafa það sameiginlegt að vera jarð-tóna og falla vel að umhverfinu. Á móti eru öryggislitirnir, Brennisteinn og Kvika, valdir til að skera sig úr. Bæði frá hinum litunum, en ekki síður til að vera áberandi í umhverfinu og draga þannig augað að upplýisingunum sem er mikilvægt að sjá.
Með því að velja stærð flatarins sem öryggislitrnir þekja, má stýra hversu aðkallandi öryggisupplýsingarnar eru.
Myndin hér að ofan sýnir fjórar mismunandi áherslur á öryggisþáttinn í almennu skilti í stærðinni 100×220 cm.
Síðan má einnig velja stærð skiltisins og þannig stýra hversu áberandi í umhverfinu skilti sem eru tileinkuð örygginu eru.
Mikilvægur þáttur öryggis eru að sýna réttar og viðeigandi upplýsingar á almennum skiltum, ekki aðeins öryggisskiltum. Gott dæmi eru vegprestar sem innihalda vegalengdir og áætlaða göngutíma. Þessar upplýsingar geta sem dæmi bjargað mörgum sem eru á göngu og þurfa réttar upplýsingar til að taka ákvarðanir um hvert skal ganga.
Einnig er mikilvægt að minna á, með þjónustumerkjum og textum, hvað ber að varast á svæðum sem er gengið inná.
Sérstök myndmerki hafa verið teiknuð fyrir öryggishluta Vegrúnar, sem er hægt að skoða í kaflanum um Myndmerki hér á vefnum.
Merkjunum er skipt upp í hættu og aðvaranir og bannmerki annarsvegar, sem hjálpa sérstaklega til við að stýra öryggismálum. Og þjónustumerki og leiðbeiningarmerki hinsvegar til upplýsinga um staðinn.
Allar merkingar í Vegrúnu skulu vera á íslensku og ensku. Í öryggismerkingum er einnig leyfilegt að bæta við þriðja tungumáli, ss. kínversku, sé þess þörf.
Besta lausnin er þó að notast við myndmerki og upplýsingar sem skiljast þvert á tungumál, ss. vegalengdir og tíma.
Vegrún er gerð með það í huga að hægt sé að nýta hana í flestum aðstæðum, en vissulega munu koma upp aðstæður þar sem nauðsynlegt er að brjótast út úr reglum hennar til að passa tilteknum stöðum. Þetta á sérstaklega við í öryggismerkingum.
Á meðan grunnreglur um framsetningu öryggisupplýsinganna er framfylgt, hvetjum við notendur kerfisins að sveigja reglurnar til að auka læsileika og öryggi notendans.
Dæmi um slíkt má sjá á myndunum hér að neðan, þar sem öryggismerking var sérstaklega gerð til að passa á kassa fyrir björgunarhring við Djúpalónssand. Hér þótti ekki við hæfi að bæta við sérstöku skilti og taka þannig frá umhverfinu, en um leið mikilvægt að merkja kassann vel. Límfilma var sérgerð í stærð beint á kassann og þannig mátti nota aðstæður og um leið gera þær eftirtektaverðari og þar með öruggari.