Myndmerki (e. pictograms) eru einn mikilvægasti þáttur allra merkingakerfa til að auka læsileika þvert á tungumál.
Vegrún notar fjölda myndmerkja til að koma upplýsingum af ýmsum toga á framfæri. Myndmerkin eru allt frá hefðbundnum salernismerkingum yfir í merki sem benda gestum á að gera ekki þarfir sínar úti í náttúrunni.
Myndmerkin eru teiknuð með það í huga að þau falli vel að letrinu Stika Sans og séu læsileg í öllum stærðum. Merkin byggja á þekktum og reyndum alþjóðlegum grunni. En þau eru aðlöguð aðstæðum og þörfum ferðamennsku á Íslandi og hafa á sér einkennandi blæ.
Sækja má öll myndmerkin saman í einum pakka, hér neðst á síðunni, eða stakt merki fyrir sig. Hvert merki kemur í litasamsetningum fyrir alla litamöguleika Vegrúnar, í bitmap (PNG) og vektor (PDF) útgáfum.
Þjónustumerki vísa til tiltekinnar þjónustu sem gestur svæðisins getur fundið og nýtt sér.
Leiðbeinandi myndmerki benda á hvernig má og á að nýta umhverfið í kring. Leiðbeina gestum svæðisins.
Hættur og aðvaranir vara okkur við varasömum aðstæðum í náttúrunni, auk þess að benda á möguleg hjálpartæki í slíkum aðstæðum.
Þessi merki eru framsett í litnum Kvika, til að skera sig úr umhverfinu. Setja má þau í enn meira áberandi framsetningu með því að láta þau sitja á Brennisteins-gulum grunni. Sjá nánar í kaflanum Öryggismerkingar.
Allar þjónustur og leiðbeiningar geta verið með bannmerki yfir, sem snýr við meiningu merkisins. Tjald án bannmerkis merkir tjaldvæði — með bannmerki að bannað sé að tjalda.
Hér má sækja helstu myndmerki sem eru líkleg til að þurfa bannmerki, auk nokkurra sem aðeins eru til í bannmerkjaútgáfu — eins og B021: Bannað að kúka.
Merking á erfiðleikastigi gönguleiðar er góð og mikilvæg leið til þess að miðla upplýsingum til gangandi vegfaranda. Það getur bæði beinlínis verið hættulegt fyrir lítt vant göngufólk að ganga leiðir sem þarfnast tæknilegrar kunnáttu sem og mikil líkamlegs þróttar og það getur einnig haft mikil og neikvæð áhrif á upplifun göngufólks á náttúru landsins. Það er því mikilvægt að vel sé gert þegar erfiðleikastig á gönguleiðum er ákvarðað.
Á liðnum misserum hefur verið unnið að skilgreiningu á erfiðleikastigum gönguleiða hér á landi, en með auknum fjölda ferðamanna, innlendum sem og erlendum, hefur fjölgað mjög í röðum þeirra sem njóta landsins með útivist. Í merkingahandbók frá árinu 2011, var stuðst við þrjú erfiðleikastig fyrir þá aðila sem ekki þurftu sérstaka aðstoð eins og hjólastól eða göngustaf. Víða erlendis hefur erfiðleikastigum verið að fjölga til að tryggja megi nákvæmari skilgreiningu á gönguleiðum og þar af leiðandi betri og jákvæðari upplifun á gönguleiðum fyrir ferðamenn.
Því miður er þessari vinnu ekki lokið. Sumarið 2021 mun vinnuhópur um erfiðleikastig taka út mjög þekktar og lítt þekktar gönguleiðir út frá fyrirfram skilgreindum kvörðum. Verður sú vinna m.a. nýtt til að rýna frekar gönguleiðir og erfiðleikastig þeirra. Stefnt er að því að niðurstaða vinnunnar verði gerð skil ekki seinna en í lok september 2021 og verður hún í kjölfarið aðgengileg á þessari síðu.
Mikilvægt er að nota réttar samsetningar á litum á myndmerkjum, eftir hvaða grunnlitur er notaður í viðkomandi skilti. Sjá nánar í kafla um grunnliti.
Hvert merki hefur þegar verið útbúið í öllum útfærslum og heita skjölin eftir litaútgáfum.
Hættu- og aðvaranamyndmerki eru ávallt notuð í kvikulit (rauðum) óháð bakgrunni.
Passið að nota rétta litaútgáfu af þeim myndmerkjum sem þú setur á skiltin.
Litur á skilti | Heiti á skjali | Lýsing á litum |
---|---|---|
Grágrýti (dökkblár) | /gragryti | Ljós grunnur með grágrýtislituðu merki |
Móberg (dökkbrúnn) | /moberg | Ljós grunnur með móbergslituðu merki |
Mosi (dökkgrænn) | /mosi | Ljós grunnur með mosalituðu merki |
Ull (ljós) | /ull | Dökkbrúnn grunnur með ullar(ljós)lituðu merki |
Hægt er að sækja stök myndmerki með því að smella á viðkomandi merki hér að ofan, en einnig má sækja öll myndmerkin í einu .zip skjali hér að neðan.