2.6

Textar

Á öllum stærri skiltum er texti sem skýrir út fyrir gestum hvað fyrir augu ber. Allur texti er á tveimur tungu­málum, íslensku og ensku. Mikil­vægt er að vanda til texta­smíð­innar.

Athugið

Lengd texta verður alltaf ljós af skap­alóni skilt­isins í Vegrúnu. Þar sést hve mikið rýmið er fyrir textann og enska þýðingu hans þegar búið er að koma fyrir öllu á flet­inum: texta, kortum og myndum.

Reglur um stærð leturs má finna í kafl­anum Letur — og ekki er leyfi­legt að aðlaga stærð letursins að magni texta, til að koma meira fyrir á sama fleti. Lengri og ítar­legri texti kallar á stærra skilti.


2.6.1Texti saminn — góð ráð#2.6.1-texti-saminn-god-rad

Þegar texti er saminn á skilti er gott að minna sig á að verk­efnið er að fanga athygli fólks. Lang­flestir skoða yfir­skrift/fyrir­sögn, stutta saman­tekt og jafnvel mynda­texta og láta það nægja. Aðeins þeir áhuga­söm­ustu lesa megin­málið. En þegar best tekst upp gleymir lesandinn sér og sökkvir sér í efnið.

Hafið í huga

  • Einfaldleikinn í fyrirrúmi.
  • Stuttar efnisgreinar. Því styttri því betra.
  • Segja góða sögu.
  • Aðalatriðin fyrst. Smáatriðin síðar.
  • Er betra að sleppa útskýringum og nota frekar annars konar texta? Kannski ljóð?
  • Kurteisi er betri en boð og bönn. Ekki er gott að skammast í fólki, heldur biðja það vinsamlegast um að virða náttúruna og ganga vel um. Í stað þess að banna fólki, segið eitthvað á borð við: „Vinsamlegast takið aðeins minningar og ljósmyndir með ykkur.“

Hin sígilda þrískipting textans er

  • Skýr og áhugaverð fyrirsögn
  • Stutt og hnitmiðuð efnislýsing
  • Frekari útlistun

Reynið að láta myndir og kort vinna með text­anum. Nýtið mynda­texta til að koma upplýs­ingum á fram­færi. Notið gröf ef koma þarf tölu­legum upplýs­ingum til skila. Það er ekki skemmti­legt að lesa texta með enda­lausum tölum. Og munið að hvert skilti er eins og góð saga. Áhuga­verður og óvæntur inngangur vekur forvitni. Sagan er síðan dýpkuð í stuttri lýsingu.

 


2.6.2Unnið í grunni#2.6.2-unnid-i-grunni

Fræðslu­skilti og upplýs­inga­skilti eru afrakstur þekk­ingar á því sem til umfjöll­unar er. Þegar skilti eru útbúin er mikil­vægt að verja góðum tíma í að kanna að allt sem þar kemur fram eigi sér raun­veru­lega stoð í heim­ildum og rann­sóknum. Umfjöllun um plöntur á vissu svæði verður að hafa stuðning af raun­veru­legri þekk­ingu á efninu. Umfjöllun um dýralíf verður að sama skapi að byggja á áreið­an­legum upplýs­ingum. Sagnir um byggð fyrr á öldum verða að hafa stoð í rituðum heim­ildum eða könnun á minjum þannig að hægt sé að standa við þær full­yrð­ingar sem koma fram.


2.6.3Yfirlestur og sjálfstæði#2.6.3-yfirlestur-og-sjalfstaedi

Gott er að fá sem flesta til að lesa yfir til að koma í veg fyrir mistök. Það þarf einnig að próf­arka­lesa texta vand­lega og velta þar öllum steinum því ekkert er neyð­ar­legra en prentvilla á skilti. En um leið er mikil­vægt að láta ekki vatna út textann eða gera hann að bútasaumi athuga­semda úr öllum áttum. Athuga­semdir þar sem bent er á villur eða eitt­hvað er fært til betri vegar eru mikil­vægar. En ekki gera textann að umræðu­vett­vangi fyrir andstæð sjón­armið sem þarf að sætta. Einbeitið ykkur að aðal­at­riðinu. Ekki hika. Full­yrðið það sem vitað er og haldið ykkur við söguna sem styður þá full­yrð­ingu.


2.6.4Skemmtun og fræðsla#2.6.4-skemmtun-og-fraedsla

Reynið að skrifa textann í léttum og kátum tóni þannig að gaman sé að lesa hann. Um leið er mikil­vægt að hafa máls­greinar stuttar og hnit­mið­aðar. Forðist langlokur. Íslenskan er í eðli sínu bein­skeytt tungumál sem byggir á aðal­setn­ingum og notar sagnir frekar en hátimbr­aðar nafn­orða­sam­setn­ingar. Treystið því móður­málinu.


2.6.5Tungumál#2.6.5-tungumal

Almennt eru öll skilti í Vegrúnu hugsuð á íslensku og ensku. Mögu­leiki er á að bæta við þriðja tungu­máli, en þá aðeins sem hluti af örygg­is­merk­ingum.

Íslenska skal ávalt vera fyrsta tungumál merk­ing­anna, með ensku sem viðbót og sett í léttara letur. Nánari reglur um útlits­fram­setn­ingu má lesa og skoða í kafl­anum Skilti, undir hverri tegund fyrir sig.


2.6.6Örnefni#2.6.6-ornefni

Örnefni koma fyrir á flestum upplýs­inga- og fræðslu­skiltum. Örnefni eru sem þráður milli ferða­mannsins og umhverf­isins. Fyrir það fyrsta er líklegt að sá sem stendur fyrir framan skilti sé kominn þangað vegna örnefn­isins. Sjálft stað­ar­heitið er yfir­skrift þeirrar reynslu sem ferða­mað­urinn telur sig eiga í vændum. Þetta á ekki síst við um víðfræg örnefni svo sem Dyrhólaey, Ásbyrgi eða Jökuls­árlón. Slík örnefni hafa yfir sér áru og skapa hugrenn­inga­tengsl sem ofin eru úr margskonar upplýs­ingum úr ótal miðlum. En á slíkum stöðum er einnig mörg önnur örnefni að finna og um þau getur verið áhuga­vert að upplýsa gesti. Örnefnin tengjast til dæmis merktri göngu­leið eða eru heiti á þeim fyrir­bærum í landinu sem ferða­mað­urinn sér þegar hann lítur í kringum sig. Örnefnið tengir gestinn við sögu stað­arins, fyrri búsetu eða það gagn sem fyrri kynslóðir höfðu af landinu. Örnefni hafa í sér fólginn stað­ar­anda og merk­ing­ar­svið þeirra getur spannað texta, lista­verk og sagnir. Þetta sést augljós­lega af örnefnum sem koma fyrir í Íslend­inga sögum eða þjóð­sögum eða tengjast sögu þjóð­ar­innar. Afar algengt er að til séu skráðar sagnir sem skýra örnefnin eða geyma tilgátur um tilurð þeirra. Afar mikil­vægt er að kynna sér allt slíkt efni til hlítar áður en textinn á skiltið er saminn. Annars er hætt við að menn endur­taki bábiljur eða missi einfald­lega af góðri sögu.

Á seinni árum hafa orðið til það sem kalla mætti „ferða­manna­ör­nefni“. Þetta eru heiti á fjöl­förnum áfanga­stöðum svo sem „Diamond Beach“, sem notað er um fjör­urnar við ósa Jökulsár á Breiða­merk­urs­andi. Þetta eru ekki örnefni og þau eiga ekki að vera á skiltum. Um örnefni gilda sérstök lög (nr. 22/2015). Þar er skýrt kveðið á um að örnefni skuli vera í samræmi við stað­hætti og örnefna­hefð sem og í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Afar mikil­vægt er að skilti sem byggjast á Vegrúnar-kerfinu fylgi lögum og reglum í þessu tilliti sem öðru.

Dæmi

Gott dæmi um nýtil­komið og rangt heiti á fjöl­farinn stað er Breiða­merk­urs­andur við Jökuls­árlón, sem hefur fengið viðnefnið Diamond Beach. Nafnið hefur orðið það útbreitt að það er nú komið inn í Google maps.

Á meðan sum svona nýyrði geta verið skemmtileg, þá er mikil­vægt að nota aðeins rétt og stað­fest heiti á öll skilti innan Vegrúnar. Þetta skiptir máli í ljósi öryggis, þar sem við viljum ávalt hafa sömu heiti þvert yfir merk­ingar, rafræn gögn, kort og aðra staði — óháð hvar ferða­mað­urinn er að leita sér upplýs­inga.

Þar sem textar á skiltum eru jafnan á tveimur tungu­málum, íslensku og ensku, er eðilegt að inntak örnefna sé skýrt út á ensku og jafnvel að reynt sé að þýða örnefnið á ensku til að gefa erlendum gestum mögu­leika á að skilja hugs­unina að baki nafninu. Slík útskýring getur tengst umfjöllun um örnefnið á íslensku. Dæmi um slíkt er Dritvík á Snæfellsnesi. Örnefnið Dritvík kemur fyrir í Bárðar sögu Snæfellsáss, sem fellur í flokk forn­ald­ar­sagna og er með miklum ævin­týra- og þjóð­sagnablæ. Þar greinir frá land­náms­mann­inum Bárði Dumbs­syni sem fer frá Noregi til Íslands. Hann kemur að landi við Snæfellsnes. Menn hans ganga örna sinna á skipinu og rekur þrekkinn að landi, eða eins og segir í sögunni: „þann sama vall­gang rak upp í þessari vík og heitir það Dritvík“. Sagan er skemmtileg, á sér vísun til land­náms­manns héraðsins og tengist þannig miklum sagna­sveig um hinn goðsagna­kennda Bárð sem er yfir og allt um kring á utan­verðu Snæfellsnesi.

Þeir sem hafa veg og vanda af því að semja efni fyrir skilti þurfa að gæta vel að því að örnefni sem þar koma fyrir séu rétt og rituð með þeim hætti sem flestum heim­ildum ber saman um. Í örnefna­lögum (nr. 22/2015) er kveðið á um að haldið sé utan um örnefni í sérstökum örnefna­grunni og er Land­mæl­ingum Íslands falið það verk­efni. Öllum er ráðlagt að skoða sem best það svæði þar sem setja á upp merk­ingar í örnefnasjá Land­mæl­inga en þar má skoða gögn örnefna­grunns.


2.6.7Dæmi#2.6.7-daemi

Gott getur verið að hafa fyrir­myndir þegar texti skilta er ritaður. Hér að neðan eru dæmi um texta á skiltum þar sem sagt er frá stöðum, náttúru og sögu.

Á stað­ar­skilti fyrir Dritvík, Snæfellsnesi, var skrif­aður texti út frá sögu stað­arins, minjum og þjóð­sögum. Mynd­efni á skiltið er valið til að styðja við textann, sem er hafður á íslensku og ensku.

Dæmi um texta fyrir staðarskilti við Dritvík
Dæmi um texta fyrir staðarskilti við Dritvík

Dritvík
Öldum saman var Dritvík fengsæl og stór verstöð. Þaðan var róið á vorvertíð, frá apríl­byrjun og fram í miðjan maí, 200-600 manns á 40 til 60 skipum, bæði karl­menn og konur. Yfir vertíðina bjuggu vermenn í byrgjum sem tjaldað var yfir. Þeim til aðstoðar við verkun aflans og önnur störf var fólk sem bjó í allt að tíu þurra­búðum upp af víkinni. Drykkjar­vatn þurfti að sækja í lónin á Djúpalónss­andi og kallast gatan þar á milli Vatns­stígur. Vertíð­ar­róð­urinn lagðist af um miðja 19. öld. Ummerki um útgerðina má sjá í hleðslum af fiskreitum, fisk­byrgjum og kofatóftum í hrauninu. Ýmis­legt gerðu vermenn sér til skemmt­unar þegar slæmt var í sjóinn, glímdu hver við annan, og við aflrauna­steinana á Djúpalónss­andi, tefldu og tóku í spil. Á sléttri flöt upp af Vatns­stíg má finna fornt völund­arhús. Ekki er ljóst hverjir hlóðu eða í hvaða tilgangi, en ekki er ólík­legt að vermenn hafi oft lagt leið sína að því og iðkað göngur um húsið. Farið með gát um minjarnar.

Dritvík kemur fyrir í sögum af hinum goðsagna­kennda land­náms­manni Snæfells­ness, hálftröllinu Bárði Dumbs­syni. Hann kom á skipi sínu frá Noregi að Djúpalónss­andi. Menn hans settu skipið á land í vík nokkru vestan við Djúpalón. Þar hafði mannasaur rekið á land eftir að skip­verjar höfðu gengið örna sinna. Kölluðu þeir því víkina Dritvík. Eins líklegt er þó að nafnið sé dregið af fugls­driti.