Á öllum stærri skiltum er texti sem skýrir út fyrir gestum hvað fyrir augu ber. Allur texti er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Mikilvægt er að vanda til textasmíðinnar.
Lengd texta verður alltaf ljós af skapalóni skiltisins í Vegrúnu. Þar sést hve mikið rýmið er fyrir textann og enska þýðingu hans þegar búið er að koma fyrir öllu á fletinum: texta, kortum og myndum.
Reglur um stærð leturs má finna í kaflanum Letur — og ekki er leyfilegt að aðlaga stærð letursins að magni texta, til að koma meira fyrir á sama fleti. Lengri og ítarlegri texti kallar á stærra skilti.
Þegar texti er saminn á skilti er gott að minna sig á að verkefnið er að fanga athygli fólks. Langflestir skoða yfirskrift/fyrirsögn, stutta samantekt og jafnvel myndatexta og láta það nægja. Aðeins þeir áhugasömustu lesa meginmálið. En þegar best tekst upp gleymir lesandinn sér og sökkvir sér í efnið.
Hafið í huga
Hin sígilda þrískipting textans er
Reynið að láta myndir og kort vinna með textanum. Nýtið myndatexta til að koma upplýsingum á framfæri. Notið gröf ef koma þarf tölulegum upplýsingum til skila. Það er ekki skemmtilegt að lesa texta með endalausum tölum. Og munið að hvert skilti er eins og góð saga. Áhugaverður og óvæntur inngangur vekur forvitni. Sagan er síðan dýpkuð í stuttri lýsingu.
Fræðsluskilti og upplýsingaskilti eru afrakstur þekkingar á því sem til umfjöllunar er. Þegar skilti eru útbúin er mikilvægt að verja góðum tíma í að kanna að allt sem þar kemur fram eigi sér raunverulega stoð í heimildum og rannsóknum. Umfjöllun um plöntur á vissu svæði verður að hafa stuðning af raunverulegri þekkingu á efninu. Umfjöllun um dýralíf verður að sama skapi að byggja á áreiðanlegum upplýsingum. Sagnir um byggð fyrr á öldum verða að hafa stoð í rituðum heimildum eða könnun á minjum þannig að hægt sé að standa við þær fullyrðingar sem koma fram.
Gott er að fá sem flesta til að lesa yfir til að koma í veg fyrir mistök. Það þarf einnig að prófarkalesa texta vandlega og velta þar öllum steinum því ekkert er neyðarlegra en prentvilla á skilti. En um leið er mikilvægt að láta ekki vatna út textann eða gera hann að bútasaumi athugasemda úr öllum áttum. Athugasemdir þar sem bent er á villur eða eitthvað er fært til betri vegar eru mikilvægar. En ekki gera textann að umræðuvettvangi fyrir andstæð sjónarmið sem þarf að sætta. Einbeitið ykkur að aðalatriðinu. Ekki hika. Fullyrðið það sem vitað er og haldið ykkur við söguna sem styður þá fullyrðingu.
Reynið að skrifa textann í léttum og kátum tóni þannig að gaman sé að lesa hann. Um leið er mikilvægt að hafa málsgreinar stuttar og hnitmiðaðar. Forðist langlokur. Íslenskan er í eðli sínu beinskeytt tungumál sem byggir á aðalsetningum og notar sagnir frekar en hátimbraðar nafnorðasamsetningar. Treystið því móðurmálinu.
Almennt eru öll skilti í Vegrúnu hugsuð á íslensku og ensku. Möguleiki er á að bæta við þriðja tungumáli, en þá aðeins sem hluti af öryggismerkingum.
Íslenska skal ávalt vera fyrsta tungumál merkinganna, með ensku sem viðbót og sett í léttara letur. Nánari reglur um útlitsframsetningu má lesa og skoða í kaflanum Skilti, undir hverri tegund fyrir sig.
Örnefni koma fyrir á flestum upplýsinga- og fræðsluskiltum. Örnefni eru sem þráður milli ferðamannsins og umhverfisins. Fyrir það fyrsta er líklegt að sá sem stendur fyrir framan skilti sé kominn þangað vegna örnefnisins. Sjálft staðarheitið er yfirskrift þeirrar reynslu sem ferðamaðurinn telur sig eiga í vændum. Þetta á ekki síst við um víðfræg örnefni svo sem Dyrhólaey, Ásbyrgi eða Jökulsárlón. Slík örnefni hafa yfir sér áru og skapa hugrenningatengsl sem ofin eru úr margskonar upplýsingum úr ótal miðlum. En á slíkum stöðum er einnig mörg önnur örnefni að finna og um þau getur verið áhugavert að upplýsa gesti. Örnefnin tengjast til dæmis merktri gönguleið eða eru heiti á þeim fyrirbærum í landinu sem ferðamaðurinn sér þegar hann lítur í kringum sig. Örnefnið tengir gestinn við sögu staðarins, fyrri búsetu eða það gagn sem fyrri kynslóðir höfðu af landinu. Örnefni hafa í sér fólginn staðaranda og merkingarsvið þeirra getur spannað texta, listaverk og sagnir. Þetta sést augljóslega af örnefnum sem koma fyrir í Íslendinga sögum eða þjóðsögum eða tengjast sögu þjóðarinnar. Afar algengt er að til séu skráðar sagnir sem skýra örnefnin eða geyma tilgátur um tilurð þeirra. Afar mikilvægt er að kynna sér allt slíkt efni til hlítar áður en textinn á skiltið er saminn. Annars er hætt við að menn endurtaki bábiljur eða missi einfaldlega af góðri sögu.
Á seinni árum hafa orðið til það sem kalla mætti „ferðamannaörnefni“. Þetta eru heiti á fjölförnum áfangastöðum svo sem „Diamond Beach“, sem notað er um fjörurnar við ósa Jökulsár á Breiðamerkursandi. Þetta eru ekki örnefni og þau eiga ekki að vera á skiltum. Um örnefni gilda sérstök lög (nr. 22/2015). Þar er skýrt kveðið á um að örnefni skuli vera í samræmi við staðhætti og örnefnahefð sem og í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Afar mikilvægt er að skilti sem byggjast á Vegrúnar-kerfinu fylgi lögum og reglum í þessu tilliti sem öðru.
Gott dæmi um nýtilkomið og rangt heiti á fjölfarinn stað er Breiðamerkursandur við Jökulsárlón, sem hefur fengið viðnefnið Diamond Beach. Nafnið hefur orðið það útbreitt að það er nú komið inn í Google maps.
Á meðan sum svona nýyrði geta verið skemmtileg, þá er mikilvægt að nota aðeins rétt og staðfest heiti á öll skilti innan Vegrúnar. Þetta skiptir máli í ljósi öryggis, þar sem við viljum ávalt hafa sömu heiti þvert yfir merkingar, rafræn gögn, kort og aðra staði — óháð hvar ferðamaðurinn er að leita sér upplýsinga.
Þar sem textar á skiltum eru jafnan á tveimur tungumálum, íslensku og ensku, er eðilegt að inntak örnefna sé skýrt út á ensku og jafnvel að reynt sé að þýða örnefnið á ensku til að gefa erlendum gestum möguleika á að skilja hugsunina að baki nafninu. Slík útskýring getur tengst umfjöllun um örnefnið á íslensku. Dæmi um slíkt er Dritvík á Snæfellsnesi. Örnefnið Dritvík kemur fyrir í Bárðar sögu Snæfellsáss, sem fellur í flokk fornaldarsagna og er með miklum ævintýra- og þjóðsagnablæ. Þar greinir frá landnámsmanninum Bárði Dumbssyni sem fer frá Noregi til Íslands. Hann kemur að landi við Snæfellsnes. Menn hans ganga örna sinna á skipinu og rekur þrekkinn að landi, eða eins og segir í sögunni: „þann sama vallgang rak upp í þessari vík og heitir það Dritvík“. Sagan er skemmtileg, á sér vísun til landnámsmanns héraðsins og tengist þannig miklum sagnasveig um hinn goðsagnakennda Bárð sem er yfir og allt um kring á utanverðu Snæfellsnesi.
Þeir sem hafa veg og vanda af því að semja efni fyrir skilti þurfa að gæta vel að því að örnefni sem þar koma fyrir séu rétt og rituð með þeim hætti sem flestum heimildum ber saman um. Í örnefnalögum (nr. 22/2015) er kveðið á um að haldið sé utan um örnefni í sérstökum örnefnagrunni og er Landmælingum Íslands falið það verkefni. Öllum er ráðlagt að skoða sem best það svæði þar sem setja á upp merkingar í örnefnasjá Landmælinga en þar má skoða gögn örnefnagrunns.
Gott getur verið að hafa fyrirmyndir þegar texti skilta er ritaður. Hér að neðan eru dæmi um texta á skiltum þar sem sagt er frá stöðum, náttúru og sögu.
Á staðarskilti fyrir Dritvík, Snæfellsnesi, var skrifaður texti út frá sögu staðarins, minjum og þjóðsögum. Myndefni á skiltið er valið til að styðja við textann, sem er hafður á íslensku og ensku.
Dritvík
Öldum saman var Dritvík fengsæl og stór verstöð. Þaðan var róið á vorvertíð, frá aprílbyrjun og fram í miðjan maí, 200-600 manns á 40 til 60 skipum, bæði karlmenn og konur. Yfir vertíðina bjuggu vermenn í byrgjum sem tjaldað var yfir. Þeim til aðstoðar við verkun aflans og önnur störf var fólk sem bjó í allt að tíu þurrabúðum upp af víkinni. Drykkjarvatn þurfti að sækja í lónin á Djúpalónssandi og kallast gatan þar á milli Vatnsstígur. Vertíðarróðurinn lagðist af um miðja 19. öld. Ummerki um útgerðina má sjá í hleðslum af fiskreitum, fiskbyrgjum og kofatóftum í hrauninu. Ýmislegt gerðu vermenn sér til skemmtunar þegar slæmt var í sjóinn, glímdu hver við annan, og við aflraunasteinana á Djúpalónssandi, tefldu og tóku í spil. Á sléttri flöt upp af Vatnsstíg má finna fornt völundarhús. Ekki er ljóst hverjir hlóðu eða í hvaða tilgangi, en ekki er ólíklegt að vermenn hafi oft lagt leið sína að því og iðkað göngur um húsið. Farið með gát um minjarnar.
Dritvík kemur fyrir í sögum af hinum goðsagnakennda landnámsmanni Snæfellsness, hálftröllinu Bárði Dumbssyni. Hann kom á skipi sínu frá Noregi að Djúpalónssandi. Menn hans settu skipið á land í vík nokkru vestan við Djúpalón. Þar hafði mannasaur rekið á land eftir að skipverjar höfðu gengið örna sinna. Kölluðu þeir því víkina Dritvík. Eins líklegt er þó að nafnið sé dregið af fuglsdriti.