1.3

Hvernig geri ég skilti?

Undir­bún­ingur fyrir gerð merk­inga.

Ákvörð­unin um að setja upp skilti og merk­ingar rís af ýmsum ástæðum. Lengi hefur staðið til að fræða þá sem nema staðar við nátt­úru­fyr­ir­bæri eða sögu­stað en ekki komist í verk. Á staðnum eru þegar skilti en þau eru komin til ára sinna og orðin upplituð og sjúskuð. Kannski standa skiltin ekki á heppi­legum stað miðað við þá leið sem flestir fara. Skilta­gerðin tengist einnig oft viða­meiri fram­kvæmdum. Gera á stíga, setja upp palla og þrep. Merk­ingar eru þá hluti af fram­kvæmd­unum og hluti af heild­ar­hönnun svæð­isins. Í öllum tilvikum þarf skiltið að skýra hvers vegna hér er gott að staldra við og horfa í kringum sig.

Vegrún sýnir hvernig á að búa til skilti. Hvaða efni þarf í stoðir, undir­stöður og merk­ingar. Vegrún sýnir hvernig hanna á skilti, hvaða letur maður notar fyrir textann, hvaða litir eru í bakgrunni og hvernig mynd­merki má nota til að auðkenna hættur eða segja frá þjón­ustu.

Hér á síðunni má ná í gögn og skjöl til að reikna út það efni sem þarf, hanna skiltið og skoða það áður en það er að endingu búið til og sett upp. Sótt er letur og skil­greindur litur í bakgrunninn og skiltin síðan mátuð við umhverfið þar sem þeim er ætlaður staður með AR-búnaði á venju­legum snjallsímum. Vegrún aðstoðar einnig við að reikna út stærðir skilt­anna og hvort sækja þurfi um leyfi fyrir uppsetn­ingu þeirra.

Inni­hald skilt­anna er sett saman úr fjórum megin­þáttum:

  1. Texta
  2. Kortum
  3. Myndefni
  4. Myndmerkjum

Af augljósum ástæðum er samsetning þessara þátta mismun­andi eftir því hver tilgangur skiltsins er og hvar það er. Mikil­vægt er að hafa skýra mynd í upphafi af því hvers konar skilti á að setja upp. Er hugs­unin að benda á minjastað? Er ætlunin að fræða um ríku­legt fuglalíf í nágrenninu? Er hugs­unin að skýra út fyrir gestum sögu stað­arins og sérkenni, svo sem örnefni?

Í þeim tilvikum þar sem skilti stendur við upphaf göngu­leiðar er augljós­lega þörf á að vanda til korta­gerð­ar­innar, sýna ljós­lega stíginn en einnig koma á fram­færi upplýs­ingum um lengd göngu­leiðar og þann tíma sem tekur að ganga hana. Á öðrum stöðum er mynd­efni í forgrunni þegar ætlunin er að hjálpa við að greina fugla­teg­undir eða gróður.

Mynd­merki sem veita upplýs­ingar um þjón­ustu, hættur eða annað geta verið á öðrum skiltafleti en stóra skiltið, en það er þó alls ekki einhlítt.

Nánar um allt sem tengist uppbygg­ingu skilt­anna á graf­ískan máta má lesa í kafla 2. Útlit­sein­ingar.


1.3.1Texti#1.3.1-texti

Rann­sóknir sýna að 90% ferða­manna muna einungis 5-10% af því sem þeir lesa og staldra einungis við í eina mínútu við skiltið. Skýr og aðgengileg skilaboð eru því algjört forgangs­at­riði og huga þarf vel að því hvernig skiltin ná athygli almenn­ings.

Á vegvísum skal eingöngu stuðst við íslensk heiti. Alltaf skal nota örnefni staðar, með mögu­leika á að hafa „ferða­manna­heitið“ (nafn sem flestir þekkja, ef það á við) í sviga sem undir­heiti eða gera grein fyrir því með öðrum hætti sem gengur upp fyrir hönn­unina. Undir­heitið skal einnig vera á íslensku. Dæmi um þetta er Flosagjá (Peningagjá) á Þing­völlum. Gæta þarf vel að því að „ferða­manna­ör­nefni“ á ensku, sem stungið hafa upp koll­inum á seinni árum, eins og „Diamond Beach“, rati ekki inn á merk­ingar. Slíkar nafn­giftir stangast einnig á við lög um örnefni (22/2015).

Skilti með meiri texta, eins og upplýs­inga- og stað­ar­skilti, skulu vera á íslensku og ensku þannig að full not séu af skilt­unum fyrir erlenda sem innlenda gesti. Ekki er gert ráð fyrir að önnur tungumál séu notuð á skilt­unum í Vegrúnu. Þegar brýn þörf er á má þó bæta við þriðja tungu­málinu, til að mynda kínversku.

Lengd texta verður alltaf ljós af skap­alóni skilt­isins í Vegrúnu. Þar sést hve mikið rýmið er fyrir textann og enska þýðingu hans þegar búið er að koma fyrir öllu á flet­inum: texta, kortum og myndum.

Nánar um texta­skrif má lesa í kafla 2.6 Textar.


1.3.2Kort#1.3.2-kort

Kort skipta miklu við að miðla mikil­vægum upplýs­ingum um stað­hætti og leiðir og mjög mikil­vægt að vandað sé til þerra, létt sé að skilja þau og að stað­setning þess sem horfir á skiltið sé vel merkt á kortinu þannig að það gagnist til að rata.

Sækja má korta­grunn í Vegrúnu og aðlaga þær upplýs­ingar að þörfum notenda. Grunninn má finna í kafla 2.7 Kort.


1.3.3Myndir#1.3.3-myndir

Stundum þarf að sýna tiltekin fyrir­bæri í lands­lagi, bregða upp mynd af því sem ekki sést lengur, sýna mynd af einkenn­andi lífverum eða jarð­fræði­legum þáttum eða birta yfir­lits­myndir. Mynd­efni á skiltum getur því verið af ýmsum toga, ýmist ljós­myndir, teikn­aðar myndir eða skýr­ing­ar­myndir og gröf. Gæta skal þess að ljós­myndir sem eru notaðar veiti ekki leið­andi upplifun af nátt­úr­unni. Ljós­myndir geta falið í sér verð­mætamat um hvað er fallegt eða eftir­sókn­ar­vert að sjá og forðast skal að móta upplifun fólks af nátt­úr­unni á þennan hátt. Mikil­vægt er að mynd­irnar skýri út það sem þörf er á að vita betur og styðji við aðrar upplýs­ingar á skiltinu, texta og kort.

Vegrún bindur ekki hendur þeirra sem hanna skilti um hvernig nota beri mynd­efni. Mikil­vægt er þó að hafa í huga fjórar megin­reglur við fram­setn­ingu mynd­efnis á skiltum:

  • Myndefnið skal vera lýsandi, fræðandi og áhugavert
  • Myndefnið þarf að hafa tilgang og á ekki að hafa leiðandi áhrif á upplifun fólks af náttúrunni
  • Prentupplausn og gæði skulu standast viðmið (sjá kafla 5.4 Filmur og prentun.)
  • Leyfi sé til staðar fyrir birtingu myndefnis og þar sem þörf er á, myndhöfundur nafngreindur.

1.3.4Myndmerki#1.3.4-myndmerki

Í Vegrúnu er sýndur fjöldi mynd­merkja sem undir­strika tilmæli til ferða­manna og gesta. Mynd­merki eru stórgóð leið til að miðla mikil­vægum upplýs­ingum hratt og óháð tungu­málum.

Sjá nánar í kafla 2.2 Mynd­merki.


1.3.5Uppsetning#1.3.5-uppsetning

Í Vegrúnu er skap­alón fyrir hönnun og frágang skilta. Sem dæmi er búið að setja niður letur­stærðir og ekki er ætlast til að þeim sé breytt til að rýma fyrir meiri eða minni texta á skilt­unum. Ef texti kemst ekki fyrir á skilti og óger­legt að stytta, þá þarf stærra skilti.

Til að tryggja samræmi í útliti skilta er mikil­vægt að halda sig við skil­greind mörk.


1.3.6Val á skilti#1.3.6-val-a-skilti

Þegar efnið liggur fyrir er komið að því að velja tegund og stærð skiltis. Í kafla 3. Skiltin má finna upplýs­ingar um þær tegundir skilta sem eru í skilta­fjöl­skyldu Vegrúnar og þægi­legan skilta­smið, sem aðstoðar við að reikna út stærð skilta og efnis­notkun í það.


1.3.7Framleiðsla og uppsetning#1.3.7-framleidsla-og-uppsetning

Í Vegrúnu má finna nánari útlistun á því hvernig á að standa að fram­leiðslu skilta. Þau eru prentuð á filmu sem síðan er komið fyrir á álplötu. Skiltin eru felld að stoðramma sem ber þau uppi og er úr íslensku lerki. Skiltin eru fest með sérstökum skrúfum og tilgreint er í Vegrúnu hvar eigi að gera göt í skiltin og hve margar skrúf­urnar eru sem þörf er á.

Nánari útlistun á allri fram­leiðslu, ásamt lista yfir fram­leið­endur, má finna í kafla 5. Fram­leiðsla.

Einnig má skoða öll skilti með AR-lausn sem sýnir í snjall­tækjum hvernig skiltið lítur út í lands­laginu og út frá því má velja besta staðinn. Mikil­vægt er að skiltið blasi vel við þeim sem eiga að lesa það.