Undirbúningur fyrir gerð merkinga.
Ákvörðunin um að setja upp skilti og merkingar rís af ýmsum ástæðum. Lengi hefur staðið til að fræða þá sem nema staðar við náttúrufyrirbæri eða sögustað en ekki komist í verk. Á staðnum eru þegar skilti en þau eru komin til ára sinna og orðin upplituð og sjúskuð. Kannski standa skiltin ekki á heppilegum stað miðað við þá leið sem flestir fara. Skiltagerðin tengist einnig oft viðameiri framkvæmdum. Gera á stíga, setja upp palla og þrep. Merkingar eru þá hluti af framkvæmdunum og hluti af heildarhönnun svæðisins. Í öllum tilvikum þarf skiltið að skýra hvers vegna hér er gott að staldra við og horfa í kringum sig.
Vegrún sýnir hvernig á að búa til skilti. Hvaða efni þarf í stoðir, undirstöður og merkingar. Vegrún sýnir hvernig hanna á skilti, hvaða letur maður notar fyrir textann, hvaða litir eru í bakgrunni og hvernig myndmerki má nota til að auðkenna hættur eða segja frá þjónustu.
Hér á síðunni má ná í gögn og skjöl til að reikna út það efni sem þarf, hanna skiltið og skoða það áður en það er að endingu búið til og sett upp. Sótt er letur og skilgreindur litur í bakgrunninn og skiltin síðan mátuð við umhverfið þar sem þeim er ætlaður staður með AR-búnaði á venjulegum snjallsímum. Vegrún aðstoðar einnig við að reikna út stærðir skiltanna og hvort sækja þurfi um leyfi fyrir uppsetningu þeirra.
Innihald skiltanna er sett saman úr fjórum meginþáttum:
Af augljósum ástæðum er samsetning þessara þátta mismunandi eftir því hver tilgangur skiltsins er og hvar það er. Mikilvægt er að hafa skýra mynd í upphafi af því hvers konar skilti á að setja upp. Er hugsunin að benda á minjastað? Er ætlunin að fræða um ríkulegt fuglalíf í nágrenninu? Er hugsunin að skýra út fyrir gestum sögu staðarins og sérkenni, svo sem örnefni?
Í þeim tilvikum þar sem skilti stendur við upphaf gönguleiðar er augljóslega þörf á að vanda til kortagerðarinnar, sýna ljóslega stíginn en einnig koma á framfæri upplýsingum um lengd gönguleiðar og þann tíma sem tekur að ganga hana. Á öðrum stöðum er myndefni í forgrunni þegar ætlunin er að hjálpa við að greina fuglategundir eða gróður.
Myndmerki sem veita upplýsingar um þjónustu, hættur eða annað geta verið á öðrum skiltafleti en stóra skiltið, en það er þó alls ekki einhlítt.
Nánar um allt sem tengist uppbyggingu skiltanna á grafískan máta má lesa í kafla 2. Útlitseiningar.
Rannsóknir sýna að 90% ferðamanna muna einungis 5-10% af því sem þeir lesa og staldra einungis við í eina mínútu við skiltið. Skýr og aðgengileg skilaboð eru því algjört forgangsatriði og huga þarf vel að því hvernig skiltin ná athygli almennings.
Á vegvísum skal eingöngu stuðst við íslensk heiti. Alltaf skal nota örnefni staðar, með möguleika á að hafa „ferðamannaheitið“ (nafn sem flestir þekkja, ef það á við) í sviga sem undirheiti eða gera grein fyrir því með öðrum hætti sem gengur upp fyrir hönnunina. Undirheitið skal einnig vera á íslensku. Dæmi um þetta er Flosagjá (Peningagjá) á Þingvöllum. Gæta þarf vel að því að „ferðamannaörnefni“ á ensku, sem stungið hafa upp kollinum á seinni árum, eins og „Diamond Beach“, rati ekki inn á merkingar. Slíkar nafngiftir stangast einnig á við lög um örnefni (22/2015).
Skilti með meiri texta, eins og upplýsinga- og staðarskilti, skulu vera á íslensku og ensku þannig að full not séu af skiltunum fyrir erlenda sem innlenda gesti. Ekki er gert ráð fyrir að önnur tungumál séu notuð á skiltunum í Vegrúnu. Þegar brýn þörf er á má þó bæta við þriðja tungumálinu, til að mynda kínversku.
Lengd texta verður alltaf ljós af skapalóni skiltisins í Vegrúnu. Þar sést hve mikið rýmið er fyrir textann og enska þýðingu hans þegar búið er að koma fyrir öllu á fletinum: texta, kortum og myndum.
Nánar um textaskrif má lesa í kafla 2.6 Textar.
Kort skipta miklu við að miðla mikilvægum upplýsingum um staðhætti og leiðir og mjög mikilvægt að vandað sé til þerra, létt sé að skilja þau og að staðsetning þess sem horfir á skiltið sé vel merkt á kortinu þannig að það gagnist til að rata.
Sækja má kortagrunn í Vegrúnu og aðlaga þær upplýsingar að þörfum notenda. Grunninn má finna í kafla 2.7 Kort.
Stundum þarf að sýna tiltekin fyrirbæri í landslagi, bregða upp mynd af því sem ekki sést lengur, sýna mynd af einkennandi lífverum eða jarðfræðilegum þáttum eða birta yfirlitsmyndir. Myndefni á skiltum getur því verið af ýmsum toga, ýmist ljósmyndir, teiknaðar myndir eða skýringarmyndir og gröf. Gæta skal þess að ljósmyndir sem eru notaðar veiti ekki leiðandi upplifun af náttúrunni. Ljósmyndir geta falið í sér verðmætamat um hvað er fallegt eða eftirsóknarvert að sjá og forðast skal að móta upplifun fólks af náttúrunni á þennan hátt. Mikilvægt er að myndirnar skýri út það sem þörf er á að vita betur og styðji við aðrar upplýsingar á skiltinu, texta og kort.
Vegrún bindur ekki hendur þeirra sem hanna skilti um hvernig nota beri myndefni. Mikilvægt er þó að hafa í huga fjórar meginreglur við framsetningu myndefnis á skiltum:
Í Vegrúnu er sýndur fjöldi myndmerkja sem undirstrika tilmæli til ferðamanna og gesta. Myndmerki eru stórgóð leið til að miðla mikilvægum upplýsingum hratt og óháð tungumálum.
Sjá nánar í kafla 2.2 Myndmerki.
Í Vegrúnu er skapalón fyrir hönnun og frágang skilta. Sem dæmi er búið að setja niður leturstærðir og ekki er ætlast til að þeim sé breytt til að rýma fyrir meiri eða minni texta á skiltunum. Ef texti kemst ekki fyrir á skilti og ógerlegt að stytta, þá þarf stærra skilti.
Til að tryggja samræmi í útliti skilta er mikilvægt að halda sig við skilgreind mörk.
Þegar efnið liggur fyrir er komið að því að velja tegund og stærð skiltis. Í kafla 3. Skiltin má finna upplýsingar um þær tegundir skilta sem eru í skiltafjölskyldu Vegrúnar og þægilegan skiltasmið, sem aðstoðar við að reikna út stærð skilta og efnisnotkun í það.
Í Vegrúnu má finna nánari útlistun á því hvernig á að standa að framleiðslu skilta. Þau eru prentuð á filmu sem síðan er komið fyrir á álplötu. Skiltin eru felld að stoðramma sem ber þau uppi og er úr íslensku lerki. Skiltin eru fest með sérstökum skrúfum og tilgreint er í Vegrúnu hvar eigi að gera göt í skiltin og hve margar skrúfurnar eru sem þörf er á.
Nánari útlistun á allri framleiðslu, ásamt lista yfir framleiðendur, má finna í kafla 5. Framleiðsla.
Einnig má skoða öll skilti með AR-lausn sem sýnir í snjalltækjum hvernig skiltið lítur út í landslaginu og út frá því má velja besta staðinn. Mikilvægt er að skiltið blasi vel við þeim sem eiga að lesa það.