Merkingakerfið Vegrún er mátkerfi (e. modular system). Mátkerfi er hugtak sem enn er að vinna sér þegnrétt í málinu en í því felst að allir þættir kerfisins eru tilbúnir til notkunar og aðgengilegir fyrir þá sem vilja. Notandinn sækir einfaldlega alla byggingarþætti kerfisins, allt frá stoðum eða jarðfestingum til myndmerkja og leturs, og raðar einingunum saman svo úr verði skilti sem þjónar hans þörfum. Vegrún er því ekki samansafn af tilbúnum merkingum, heldur verkfæri til að smíða merkingar byggðar á þörfum hvers og eins.
Kerfið gefur dæmi um hvernig megi semja og velja efni á skilti: texta, myndefni og kort. Vegrún veitir grunnleiðsögn um ritun texta á fræðslu- og upplýsingaskilti, mótar sýn á val á myndefni og leiðbeinir um notkun korta. Vegrún býður einnig upp á mikið úrval skýrra myndmerkja sem vara við hættum, vísa veginn og auðkenna það sem er á staðnum.
Vegrún er kerfi fyrir landið allt. Því er ætlað að búa til heildarsvip á öllum merkingum fyrir ferðamenn sem settar eru upp á Íslandi. Það eykur líkurnar á að gestir skilji hvað sagt er við þá á mismunandi skiltum, hvar sem þá ber niður.
Með breyttum þörfum ferðalanga og staðarhaldara þróast Vegrún einnig. Það er því eðlilegt að kerfi eins og þetta taki breytingum á komandi misserum. Kerfið var smíðað í mikilli og góðri samvinnu margra aðila og í þeim anda er kallað eftir athugasemdum og ummælum um kerfið. Betur sjá augu en auga.
Ábendingar má senda með tölvupósti á netfangið vegrun@godarleidir.is þar sem þeim verður haldið til haga og unnið úr þeim eins vel og hægt er.