Það er mikilvægt að skipuleggja vel vinnu við merkingar. Ekki er víst að allt sé framkvæmanlegt á því svæði sem er til skoðunar. Vinnum forvinnuna faglega, það hjálpar útkomunni.
Í upphafi skal endinn skoða. Skoðaðu svæðið heildrænt. Merkingar standa í mörg ár og þarf að átta sig vel á hlutverki merkinganna og áhrifum þeirra til langs tíma. Má merkja allsstaðar? Hversu mörgum ferðamönnum getur svæðið tekið á móti?
Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið og er nauðsynlegt að tilkynna sveitarfélagi svæðisins um allar merkingar sem settar eru niður í náttúrunni. Mikilvægt er að sækja um viðeigandi leyfi áður en farið er að panta merkingar. Er svæðið friðað eða eru á því menningarminjar? Þarf hugsanlega að sækja um byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi?
Eftirlit og viðhald. Það er eitt að setja merkin niður. Merkingar þurfa stöðugt eftirlit og viðhald. Merkingar með röngum upplýsingum eða merkingar sem hefur ekki verið viðhaldið geta beinlínis valdið meiri skaða en ef engar merkingar væru á svæðinu. Það er mikilvægt að allir þeir sem setja niður merkingar geri sér grein fyrir ábyrgðinni og sjái til þess að sómi sé af svæðinu.
Áður en farið er að skipuleggja hvernig á að merkja stað, þá er mikilvægt að skoða svæðið sem á að merkja heildstætt. Hvert er markmiðið með merkingunum? Hversu mikla umferð þolir svæði? Eru hættur á svæðinu sem þarf að merkja sérstaklega? Eru menningarminjar á svæðinu?
Góðar merkingar hvetja til jákvæðrar upplifunar ferðamannsins á svæðinu, geta aukið gildi landslagsins og jákvæðrar náttúruupplifunar og vernda umhverfið með stýringu ferðamanna á ákveðin svæði.
Það er ljóst að ekki má setja merkingar hvar sem er. Til dæmis hefur Vegagerðin ákveðið umráðasvæði á sinni ábyrgð. Merkingar, fastar eða lausar, má ekki setja nær þjóðvegi en 30m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega, nema leyfi veghaldara komi til. Umhverfis menningarminjar er friðhelgunarsvæði, 15 m utan um friðaðar fornleifar og 100 m utan um friðlýstar fornleifar. Minjastofnun gefur upplýsingar um staðsetningar ogfriðhelgunarsvæði menningarminja.
Þegar búið er að taka ákvörðun um hvers konar merkingar eiga að fara niður er mikilvægt að skoða staðsetninguna vel. Er mikilvægt að merkingin sjáist úr mikilli fjarlægð? Getur merkingin haft áhrif á sjónræna upplifun/nánasta umhverfi? Er svæðið berskjaldað fyrir sterkum vindum? Áður en skiltið sjálft er síðan sett niður þarf að huga að því hver er ríkjandi vindátt á staðnum, með það í huga að minnka vindálaga á skiltaflötin. Eins þarf að huga að undirlagi, og þ.a.l. að undirstöður skiltisins standist veðurálag. Hafa ber í huga að oft verður ansi mikill átroðningur við sjálft skiltið með tilheyrandi skemmdum á undirlagi og því þarf að hugsa fyrir því að skiltið auki ekki of mikið álag á svæðið umhverfis það.
AR forritið sem fylgir Vegrúnu á að aðstoða alla þá sem huga að merkingum að átta sig frekar á hvernig skiltin koma út á tilteknu svæði, bæði hvað varðar, stærð, hæð og staðsetningu skiltis. Hafa ber þó í huga að stafræn upplifun kemur aldrei í stað raunverulegrar upplifunar.
Sveitarfélög fara með skipulagsvald og hafa umsjón með og bera ábyrgð á flestum framkvæmdum í sambandi við ferðamannastaði. Mörg sveitarfélög hafa sett sér ákveðnar reglur um notkun merkinga og því er mikilvægt að kynna sér þær áður en farið er í framkvæmdir og uppsetningu skilta.
Hlutverk sveitarfélaganna
Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið og gefa út aðal- og deiliskipulag. Uppsetning skilta þarf að vera í samræmi við gildandi skipulag á viðkomandi stað. Í deiliskipulagi er svæðinu oft nægilega vel lýst til að hægt sé að veita leyfi fyrir merkingum byggðu á því og það sama gildir í sumum tilvikum um aðalskipulag. Eitt af hlutverkum sveitarfélaganna er að hafa eftirlit með því að farið sé rétt í allar framkvæmdir og á að sjá til þess að allir þeir sem setja niður skilti fylgi þeim reglum og leyfum sem gilda fyrir svæðið. Þegar framkvæmdum á svæði er lokið er ábyrgð sveitarfélagsins sleppt og þá er það í hlutverki þeirra sem stóðu að framkvæmdunum að bera ábyrgð á viðhaldi og eftirliti.
Í öllum tilvikum þegar merkingar eru settar niður þarf að upplýsa viðkomandi sveitarfélag um það og sækja um viðeigandi leyfi. Það er síðan hlutverk sveitarfélagsins að veita leyfi fyrir merkingunum en það fer eftir stærð skiltanna og eðli framkvæmdanna hvort um framkvæmda- eða byggingarleyfi er að ræða. Í einhverjum tilvika þarf að afla umsagnar eða sækja um leyfi hjá öðrum stofnunum, svo sem Minjastofnun vegna friðaðra og friðlýstra menningarminja og Umhverfisstofnun vegna friðlýstra náttúrusvæða. Mikilvægt er að eiga gott samtal við skipulagsfulltrúa sveitafélagsins til að sjá til þess að rétt sé staðið að málum, allir aðilar séu vel upplýstir og réttra umsagna aflað ef þörf er á því áður en leyfi er gefið út.
Friðlýst svæði, náttúruvætti og svæði á náttúruminjaskrá
Umhverfisstofnun hefur umsjón með náttúruminjaskrá og veitir leyfi til framkvæmda innan friðlýstra svæða. Náttúruminjaskrá skiptist í þrjá hluta. Í A-hluta náttúruminjaskrár eru friðlýst svæði og eru þau flokkuð í nokkra friðlýsingarflokka. Í B-hluta er skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi hefur sett í forgang að friðlýsa á næstu 5 árum og í C-hluta er skrá yfir aðrar náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa eða friða. Reglur á hverju friðlýstu svæði eru mismunandi og fara eftir markmiðum friðlýsingar, eðli svæðisins og samkomulagi við hagsmunaaðila. Er þitt svæði á náttúruminjaskrá?
Byggingarleyfi
Samkvæmt 2.5.1. gr. byggingarreglugerðar skal sækja um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m² að flatarmáli. Undanþegin eru þó skilti allt að 2,0 m² að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Þá þurfa stærð og staðsetning að vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Stærð merkinganna miða við skiltaflötinn sjálfan. Stoðir, festingar og annað er ekki talið með inn í ofangreindri fermetratölu.
Sótt er um byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúa/skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Húsnæðis-og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með að mannvirkjalögum og húsnæðisreglugerð og ber ábyrgð á því að þeim sé fylgt. Frekari upplýsingar um reglugerðirnar er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Framkvæmdaleyfi
Hafa ber í huga að fyrir meiriháttar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, þarf að sækja um framkvæmdaleyfi. Sveitarfélög gefa út framkvæmdaleyfi og er sótt um það hjá skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags.
Framkvæmdaleyfi skal ávallt vera í samræmi við skipulag svæðisins. Hægt er að sækja sér frekari upplýsingar á vef Skipulagsstofnunar.
Ábyrgð fylgir því að merkja ferðamannastaði og friðlýst svæði. Að setja niður merkinguna er fyrsta skref en svo þarf ávallt að sjá til þess að merkingar séu uppfærðar og að þeim sé viðhaldið. Merkingar með röngum upplýsingum eða merkingar sem hefur ekki verið viðhaldið geta beinlínis valdið meiri skaða en ef engar merkingar væru á svæðinu.
Það er mikilvægt að allir þeir sem setja niður merkingar haldi úti góðu skipulagi um skiltin og setji sér ákveðna stefnu um eftirlit og viðhald á þeim.
Gömul eða úrelt skilti á svæðinu án eiganda?
Á mörgum stöðum í náttúru landsins eru gömul og/eða úrelt skilti sem enginn virðist bera ábyrgð á. Í þeim tilvikum þar sem gömul og/eða úrelt skilti eru á ykkar svæði hvetjum við ykkur að tilkynna þau til skipulagsfulltrúa sveitafélagsins og er það þá í þeirra höndum að taka ákvörðun um þau.
Ábyrgð fylgir því að merkja ferðamannastaði og friðlýst svæði. Hvaða upplýsingar eru veittar á merkingunum? Eru hættur rétt merktar? Er réttur erfiðleikastuðull gefinn upp fyrir gönguleiðirnar? Ábyrgð er einnig fólgin í þeim áhrifum sem umferð fólks um svæðið kann að hafa á umhverfið og náttúru. Mikilvægt er að átta sig á hversu mörgum ferðamönnum svæðið getur tekið á móti og ef fjöldi er of mikill þá annað hvort verður að stýra honum með beinni aðgangsstýringu eða beina umferð ferðamanna á fleiri staði á svæðinu til að dreifa umferðinni.
Þar sem sveitarfélög hafa skipulagsvaldið á hverjum stað fyrir sig hafa þau eftirlitshlutverk á flestum þeim framkvæmdum er viðkoma ferðamannastöðum. Í einhverjum tilvika hafa sveitarfélög framselt ábyrgðinni til félagasamtaka sem sjá þá um framkvæmd, umsjón og eftirlit um svæðið en sveitarfélögin bera þó loka ábyrgðina. Einnig geta einkaaðilar og stofnanir gert samkomulag við sveitarfélög um framkvæmd, umsjón og eftirlit en eins og áður er það sveitarfélagið sem ber loka ábyrgðina.
Hvernig sem fyrirkomulagið er, er gríðarlega mikilvægt að ábyrgðarkeðjan sé skýr og að auðvelt sé að hafa uppi á þeim aðilum sem hafa umsjón og eftirlit með merkingum á hverjum stað fyrir sig.