Þar sem stöðugur straumur vatns rennur yfir stíginn, en ekki er talin þörf á brú eða lokuðu ræsi, er hægt að leggja steinlag í strauminn sem hægt er að ganga yfir. Steinunum er þannig raðað að þeir breikka yfirborð straumsins og þar af leiðandi lækkar yfirborð vatnsins. Uppröðun steinanna er með sama hætti og þegar steinlögn er lögð. Steinunum er stungið niður þétt saman og uppröðun þeirra hagað þannig að yfirborð þeirra lækkar við miðju straumsins og hækki upp að bökkum hans.
Forðast skal beinar línur í samskeytum steinanna til að auka burð og gæta þarf þess að steinarnir séu nógu stöðugir til þess að þola straum vatnsins og áhrif frosts.
Hægt er að láta nokkra steina standa aðeins hærra upp úr vatnsyfirborðinu sem hægt er að stíga á þurrum fótum.
Einnig er hægt að brúa vað með því að leggja aðeins stiklur sem ná yfir vatnsyfirborðið. Gæta þarf hins vegar þess að þær séu ekki lagðar of þétt saman til þess að hindra ekki vatnsflæðið sem gæti breytt farvegi vatnsins.