Þegar skurðir eru notaðir til þess að safna yfirborðsvatni fyrir utan stíginn er líklegt að það þurfi að leiða vatnið í gegnum stíginn. Nokkrar mismunandi gerðir ræsa má nota til þess.
Opin steinræsi leiða vatnið í gegnum stíginn og grípa einnig yfirborðsvatn af stígnum.
Ræsin verða að vera á réttum stað svo vatnið renni ekki upp á stíginn. Oftast er best að velja lægsta punkt í landslaginu fyrir ræsið og tengja það drenskurðunum sem safna yfirborðsvatni frá landinu umhverfis.
Opið á steinræsinu þarf að vera nógu breitt til þess að hægt sé að hreinsa það með skóflu og mikilvægt er að það nái um 30 cm út fyrir stíginn til að koma í veg fyrir rof.
Mikilvægt er að sökkva steinunum í ræsinu djúpt til þess að þeir séu stöðugir og koma í veg fyrir að vatn nái að grafa undan þeim. Steinarnir þurfa að liggja þétt saman og gera þarf ráð fyrir vatnshalla.