Skáræsi eru vatnsleiðarar úr grjóti. Þau eru oftast staðsett í halla og eiga að hleypa yfirborðsvatni af stígnum til að koma í veg fyrir að það grafi stíginn í sundur. Þau gegna einnig svipuðu hlutverki og akkerissteinar, styðja við malarefni stígsins svo það renni ekki burt.
Best er að staðsetja skáræsi í beygjum og þar sem stígurinn byrjar að halla niður brekku. Mikilvægt er að ná vatninu af stígnum áður en það kemst á of mikla ferð. Fjöldi skáræsa í brekku fer síðan eftir hversu brött brekkan er og hversu mikið vatn nær að safnast á stíginn.
Ræsið er lagt um 30–45° á stíginn. Steinunum er raðað þannig að leiðarinn standi um 10–15 cm upp úr malaryfirborðinu. Mikilvægt er að skorða steinana vel og leggja þá þétt saman þannig að vatnið renni ekki milli þeirra. Fyrir framan leiðarann er lögð önnur steinaröð með vatnshalla sem vatnið flæðir eftir út af stígnum.
Leiðarinn þarf að ná um 30 cm út fyrir stíginn svo vatnið renni ekki meðfram stígnum með tilheyrandi rofi. Ef fallið er bratt eða ef viðkvæm gróðurþekja er undir ræsinu þarf að setja niður stein sem vatnið brotnar á til þess að brjóta upp flæði vatnsins og dreifa úr því. Það kemur í veg fyrir að vatnið skelli með of miklu afli á gróðrinum fyrir utan stíginn og myndi rof í brekkunni.