3.7

Stokkræsi

Stokkræsi eru lokuð stein­ræsi sem hlaðin eru þannig að stein­arnir myndi stokk sem hleypir vatninu undir stíginn. Þetta er gömul aðferð sem hefur viðgengist lengi hérlendis við gerð þjóð­leiða. Hægt er að leggja yfir­borðs­efni yfir ræsið eða ganga á stórum hellum sem eru vel skorð­aðar. Í grunninn virka lokuð stein­ræsi eins og opin stein­ræsi fyrir utan að safna ekki yfir­borð­s­vatni af stígnum, heldur leiða þau vatn frá landinu umhverfis í gegnum stíginn. Meiri hætta er þó á að þessi ræsi stíflist heldur en opin stein­ræsi og þarf stað­ar­haldari að hafa það í huga að það gæti þurft að hreinsa þau reglu­lega.

Ræsið er þannig gert að steinlag er í botn­inum, tveir veggir og topplag. Gæta þarf þess að opið sé nógu stórt til að hleypa vatninu í gegn og að það þrengi ekki vatns­far­veginn þannig að vatnið skjótist út með miklum hraða og tilheyr­andi rofmætti. Notast þarf við stóra steina og gæta þarf þess að festa þá vel þar sem ræsið þarf að þola ágang vatns, frost­verkun og álag frá notendum stígsins.

Stokkræsi
Stokkræsi

Byrjað er á að hlaða annan vegginn, grunn­steinar lagðir með nægum bakhalla til að tryggja stöð­ug­leika og botn­lagið lagt þar á eftir. (skýr­ing­ar­mynd) Gæta þarf að vatns­halla og nota nógu stóra steina til að straum­urinn grafi ekki undan þeim. Hinn vegg­urinn er lagður og gengið er vel frá hornum og endum. Við mynni ræsisins skal leggja steina sem brjóta upp flæði vatnsins og draga úr straum­þunga þess. Þeir skulu settir aðeins neðar en grunn­lagið.

Stórar hellur eru lagðar yfir. Þær verða að ná vel yfir ræsið og eru skorð­aðar með möl og grjóti svo þær séu sem stöð­ug­astar.

Ef ekki er hjá því komist að nota rör til að leiða vatnið undir stíginn þarf að gæta þess að fela það eins vel og hægt er. Með því að hlaða steinum og torfi við mynni rörsins má dylja það.

Stokkræsi leiðir vatn frá stíg, stokkurinn fer síðan á kaf
Stokkræsi leiðir vatn frá stíg, stokkurinn fer síðan á kaf