Þar sem pollar myndast á stíg eftir miklar rigningar gæti þurft að bæta við affalli til þess að hleypa vatninu af stígnum. Affallið er lagt inn í jaðar stígsins og fellur saman við kanta hans og ætti því ekki að vera áberandi. Þetta er einfalt ræsi, gert af 3–4 steinum. Breidd þess þarf að vera þannig að auðvelt sé að hreinsa það með skóflu. Steinarnir þurfa að vera nógu stórir og það vel skorðaðir að þeir þoli ágang. Tveir steinar eru látnir standa hærra og toppur þeirra ber við torfið í kanti stígsins. Milli þessara tveggja steina er steinn sem leiðir vatnið af stígnum. Yfirborð hans þarf að vera flatt og bera við yfirborð stígsins, ef hann er of lágur getur malarefni losnað úr stígnum og ef hann er of hár nær vatnið ekki að flæða frá stígnum.
Ef pollurinn er lítill og ekki hætta á frekara rofi er hægt að stinga lítinn skurð í kant stígsins til þess að hleypa vatninu út.