Besta leiðin til að verja göngustíga fyrir vatnsrofi er að safna yfirborðsvatni fyrir utan stígana í opið ræsi og leiða það að þeim ræsum sem lögð eru í stíginn. Einföld leið er að grafa rásir að dældum í landslaginu sem hægja á rennsli vatnsins og safna því saman. Mikilvægt er þó að haga þessum skurðum þannig að þeir falli vel í landslagið og séu lítið áberandi. Það má gera með því að rista torfið af jörðinni og halda því til haga á meðan jarðvegi er mokað upp til þess að móta skurðinn.
Reynt er að hafa skurðinn eins náttúrulegan og kostur er og skal skurðurinn fylgja legu landsins. Skurðirnir mega ekki vera of beinir eða brattir þar sem það eykur hröðun vatnsins og þar af leiðandi rofmátt þess. Þegar búið er að grafa skurðina skal leggja torfið aftur yfir sárin. Stundum þarf fleiri en einn skurð til þess að safna yfirborðsvatni úr brekku, en forðast skal að raska landinu meira en þörf er á.