Hryggjarsúlan í skiltunum er stoðin sem stendur upp frá skónum og ber plöturnar.
Stoðin í hverju skilti er í stærðinni 100 × 100 mm, í viðeigandi lengd eftir þörfum. Þessi mikilvæga eining er úr íslensku lerki.
Viður er lifandi og mun sveigjast og beyjast ef miklar rakabreytingar verða. Best er að geyma viðarstoðirnar í sem líkustum aðstæðum og þær verða notaðar í fram að uppsetningu skiltisins.
Eftir að stoðin hefur verið söguð í þá lengd og hæð sem skiltið á að vera í er gott að athuga hvort stoðin sé að springa og klofna á einhverri hlið. Ef sprungurnar eru aðeins á einni hlið er gott að snúa þeim inn (sjá mynd) og ef sprungur eru á tveimur hliðum skal þeim snúið inn og út (sjá mynd). Ef sprungur eru á öllum hliðum þarf annað hvort að gæta þess að skúfur lendi ekki beint í sprungunum eða velja aðra stoð.
Hægt er að nota mikið sprungið efni í vegvita eða lægri stoðir sem fara í skáskilti.
Eftir að ákveðið hefur verið á hvaða hlið álplöturnar koma er gott að merkja hvar skal borað í stoðirnar. Hægt er að láta gera skapalón eða nota málband til að merkja.
Við mælum með að gera skapalón, sérstaklega þegar áætlað er að setja upp einhvern fjölda af skiltum. Það sparar tíma og skilar vandaðri vinnu. Þá þarf aðeins að leggja það á stoðina og bora eftir götunum eða merkja og bora svo eins mörg göt og þarf fyrir það skilti. Hér að neðan má sækja PDF skjal af slíku skapalóni, sem er hægt að nota til að láta skera út úr málm eða við til notkunar.
Ef ekki er vitað nákvæmlega hversu margar plötur koma á skiltið má nota síl til að merkja í viðinn og bora þegar vitað er hversu mörg göt þarf.
Með því að setja setja hatt á og svo plötur og fest í götin eins og þau segja til um verður skiltið sjálfkrafa beint og fallegt.
Lerki, eða barrfellir, er sumargrænt barrtré sem vex einkum á norðurhveli jarðar. Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir lerkis, en rússalerki er eitt algengasta skógræktartré á Íslandi.
Við val á efni í stoðir kom margt til greina en lerki stóð upp úr á endanum. Lerki er náttúrulega fúavarið og lerkistoðir geta staðið í tugi ára án þess að fúavörn sé borin á þær. Skógræktin og skógarbændur hafa plantað tugum þúsunda lerkitjáa í mörg ár og nú er mikið til af lerki í landinu sem nota má í stoðir.
Lerkið gránar með tímanum og verður ljósgrátt með einskonar silfuráferð með miklum karakter.
Þó að íslenskt lerki sé það efni sem hér er helst mælt með er hverjum frjálst að nota aðrar viðartegundir, jafnvel önnur efni, í stoðirnar. Ólíkar aðstæður geta kallað á ólíkar þarfir þegar kemur að efnisvali.
Sem dæmi gætu svæði sem eru rík af rekavið nýtt hann í stoðir eða merkingar. Að sama skapi má nota greni í stoðir þar sem byggingar eða önnur mannvirki úr greni hafa verið reistar í nágrenninu.
Einnig eru aðstæður sem geta kallað á notkun málms í staðinn fyrir við. Dæmi um slíka staði eru þar sem mikið er um hross, þar sem þeir eiga til að nudda sér við viðarstaura og naga þá.