1.7

Véla­notkun

Notkun véla getur létt mikið á vinnu við göngu­stíga­gerð og oft verður hrein­lega ekki hjá því komist að nota þær. Vinnu­vélar geta hins vegar raskað landinu mikið og því er nauð­syn­legt að vinna skipu­lega þegar vélar eru notaðar við stíga­gerð. Tryggja skal að gengið sé vand­lega frá öllum ummerkjum sem vinnu­vélar skilja eftir sig og allt rof sé grætt upp að verki loknu.

Vinnu­vélar geta einnig nýst vel til að lagfæra lands­lags­skemmdir, sérstak­lega á opnu landi þar sem mikið er um rof.

Dæmigerðir efnisflutningar
Dæmigerðir efnisflutningar

Notkun vinnu­véla getur flýtt mikið fyrir fram­kvæmdum, en nauð­syn­legt er að hafa í huga að handafl þarf við lokafrá­gang stíga til þess að ná fram nátt­úru­legu yfir­bragði þeirra. Við stíga­gerð þarf að færa mikið efni til innan verkstaðar og þá koma vélar sér vel, til dæmis við land­mótun og gerð ræsis­skurða. Hins vegar skal forðast að láta vélina taka yfir verkið. Huga þarf að smáat­riðum í fram­kvæmdum sem vélar ná ekki að vinna með eins mikilli nákvæmni og þegar unnið er með hönd­unum.

Flutn­ingur á efni innan verkstaðar
Við upphaf verks þarf að meta hvernig haga skal efnis­flutn­ingum innan svæð­isins. Ef flytja þarf efni eins og möl, grjót, torf eða jarðveg þarf að huga að því hvernig er best að koma efninu milli staða. Meta þarf hversu auðvelt er að komast að svæðinu og hversu vel það þolir þunga­flutn­inga. Ákveða þarf hvort hægt sé að flytja efni eftir stígnum sjálfum eða hvort það þurfi að gera bráða­birgða­slóða sem síðan er græddur upp. Ekki er gott að flytja mikið af efni langar leiðir á stígnum sjálfum þar sem það gæti haft áhrif á burð hans. Í einhverjum tilfellum getur það borgað sig að flytja efni með þyrlum á svæðum sem eru erfið yfir­ferðar og þar sem ekki er gott að komast að verkstað.

Dæmi með vandlega unnin göngustíg með vélum í N-Írlandi
Dæmi með vandlega unnin göngustíg með vélum í N-Írlandi