Við skipulag og gerð náttúrustíga eru nokkur atriði sem gott er að hafa að leiðarljósi.
Náttúruvernd
Skipulag gönguleiða er náttúruverndaraðgerð.
Göngustígar eru í raun náttúruverndaraðgerð. Á fjölsóttum ferðamannastöðum, þar sem jarðvegur og gróður er viðkvæmur fyrir raski, þarf að leggja göngustíga til þess að hindra frekara rof og skerðingu á vistkerfi. Góður göngustígur hlífir gróðurþekjunni fyrir rofi. Hann getur einnig dregið úr sjónrænum áhrifum rofsins og aukið þar með ánægju gesta af heimsókninni.
Skipulag
Greiningar áður en af stað er farið
Áður en framkvæmdir hefjast er nauðsynlegt að hafa lokið greiningarvinnu til þess að átta sig á aðstæðum á svæðinu, eins og:
Mikilvægt er að huga að því hvernig framkvæmdir falla að heildarskipulagi svæðisins og forðast skal „bútasaum“.
Gott samstarf við hagsmunaaðila
Mikilvægt er að hafa alla sem hagsmuna eiga að gæta með í ráðum og að þeir helstu í þeim hópi hafi sitt að segja um skipulag og undirbúning framkvæmda. Best er að skipulag svæðisins sé unnið í sátt við hlutaðeigandi og að sjónarmið þeirra varðandi nýtingu svæðisins komi fram.
Aðgerðum fylgja afleiðingar
Þegar búið er að gera stað aðgengilegan með göngustíg er líklegt að ferðir þangað aukist. Þess vegna þarf að huga að því hvaða afleiðingar það hefur. Er svæðið þangað sem nýr og bættur göngustígur liggur tilbúið til að taka við aukinni umferð? Er ef til vill verið að skapa nýtt vandamál með nýjum stíg? Mikilvægt er að hafa heildaryfirsýn yfir verkefnið til langs tíma litið og að framkvæmdir taki mið af heildarskipulagi svæðisins.
Falla að landslagi — Hönnun
Allar framkvæmdir í náttúrunni þurfa að falla eins vel að landslagi og kostur er. Göngustíga þarf að leggja út frá landslaginu af mikilli kostgæfni og það krefst þess að framkvæmdaaðili og hönnuður kunni að lesa í landið. Meta þarf legu stígsins út frá eftirfarandi forsendum: náttúruvernd, öryggi göngufólks og upplifun þess af gönguleiðinni. Ef göngustígur er ekki rétt lagður út frá landslagi rýrir það ánægjuna sem hafa má af staðnum og eykur hættuna á rofi sem mun auka viðhaldskostnað göngustígsins.
Mikilvægt er að lesa landið til að finna hvar stígurinn nýtur sín best og kemur að bestu gagni. Notast skal við mjúkar línur sem falla í hæðarlínur svæðisins og nauðsynlegt er að forðast einsleitni, beinar línur, ónáttúrleg form og endurtekningar. Leitast skal eftir því að leggja stíginn á eins þurru undirlendi og kostur er og forðast mikla bleytu. Einnig auðveldar það framkvæmdina ef komist er hjá því að leggja stíginn í óþarflega miklum halla.
Endingargóðir stígar eru:
Alltaf skal meta hversu mikið inngrip er nauðsynlegt hverju sinni með tilliti til náttúrufars, fjölda gesta og þolmarka staðarins. Mikilvægt er að ganga frá köntum stígsins þannig að efnið í honum haldist á stígnum og að framkvæmdin falli sem best að landinu í kring.
Staðbundinn efniviður og hefðbundið handverk
Það er grundvallaratriði við gerð náttúrustíga að efnisval samræmist umhverfinu eins vel og kostur er. Ef stígur er lagður í hrauni er æskilegt að notast við samskonar grjót og er á staðnum til að tryggja samræmi umhverfis og manngerðs landslags. Þannig verður upplifun þeirra sem fara um stígana af náttúrunni ánægjulegri og athygli þeirra beinist fremur að landslaginu en framkvæmdinni.
Eyðingarmáttur vatns
Mikilvægt er að átta sig á náttúruöflunum og ganga úr skugga um að framkvæmdin geti staðið af sér vatnsrof. Ræsi og vatnsrásir skipta miklu við stígagerð þar sem þau sjá til þess að vatn renni ekki á stíginn og ræsa burt yfirborðsvatn. Ef að ræsi eru ekki til staðar eða virka ekki eins og ætla mætti rennur vatnið óhindrað eftir stígnum og rífur yfirborðslagið. Nýlagður stígur getur þannig eyðilagst á augabragði.
Ekkert fellur til
Við stígagerð er mikilvægt að halda öllu efni til haga og nýta það í framkvæmdina. Uppgröftur nýtist í uppbyggingu kanta og landmótun og allt efni af staðnum, eins og torf, grjót, möl og jarðveg, skal nýta. Það sparar mikið að þurfa ekki að flytja allt umframefni í burtu, auk þess sem framkvæmdin fær náttúrlegt yfirbragð þegar notað er efni úr nánasta umhverfi stígsins.
Viðgerðir á landskemmdum
Á fjölförnum ferðamannastöðum þar sem innviða er ábótavant er ástand jarðvegs og gróðurfars oft og tíðum lélegt og margir villustígar orðið til. Við það verður mikið rof og oft er stór hluti framkvæmdanna uppgræðsla og landmótun. Mikilvægt er að græða upp rofið land og skapa staðargróðri kjöraðstæður til að taka við sér á ný.
Stöðugt viðhald
Göngustígum þarf að halda við. Ef viðhaldi er ekki sinnt er hætt við að stígurinn skemmist. Smávægilegt reglubundið viðhald staðarhaldara, eins og að hreinsa úr ræsum og fylgjast með hvort yfirborðsrennsli sé farið að bera burt efnið úr stíngum, getur sparað mikla vinnu og mikið fé.