Áður en hafist er handa við að leggja nýjar gönguleiðir eða bæta eldri stíga er vert að staldra við og athuga hvernig fyrirhugaðar framkvæmdir falla að heildarskipulagi svæðisins.
Oft er ætlunin að halda við illa förnum göngustíg. Þá má spyrja hvort hann liggi ef til vill á röngum stað eða hvort þörf sé á honum yfirleitt.
Fyrsta skrefið er að horfa á heildarmynd svæðisins og marka stefnu um hvernig eigi að skipuleggja það til langs tíma litið.
Það er margt sem þarf að hafa í huga við skipulagsgerð á ferðamannastöðum. Þar má nefna forsendugreiningu, hversu margir sækja svæðið daglega, veðurfar, ástand jarðvegs, þolmörk svæðis, hversu mikið inngrip er æskilegt og hvernig gönguleiðir eiga að liggja um svæðið. Marka þarf heildarstefnu um hönnun svæðisins og æskilegt er að samræmi sé í efnisvali og á yfirbragði þess sem gert er.
Á þeim ferðamannastöðum sem bera þarf mikin fjölda gesta verða innviðir að þola mikinn ágang og vera sterkir og endingargóðir. Hinsvegar ætti alltaf að leitast eftir því að jafnvel stór mannvirki falli vel að umhverfi sínu og virki ekki eins og aðskotahlutur í landinu.