2.3

Skipulag og umhverf­ismat

Uppbygging ferða­mannastaðar fellur undir skipu­lagslög ef þar er gert ráð fyrir mann­virkjum og fram­kvæmdum sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd lands. Sama á við þegar notkun svæðis eða mann­virkja er breytt eins og þegar atvinnu­hús­næði er breytt í hótel. Ef áform um ferða­mannastaðinn falla undir skipu­lagslög þarf því að byrja á að kanna hvort þau séu í samræmi við aðal­skipulag sveit­ar­fé­lagsins. Ef ekki þá getur sveit­ar­stjórn kynnt tillögu að breyt­ingu á aðal­skipu­laginu. Almennt þarf að gera deili­skipulag fyrir ferða­mannastaði, grennd­arkynning fram­kvæmdar- eða bygg­ing­ar­leyfis getur þó nægt í ákveðnum tilvikum fyrir minni­háttar fram­kvæmdir sem samræmast ákvæðum aðal­skipu­lags.

Stærri fram­kvæmdir eins og hótel í dreif­býli og fram­kvæmdir innan vernd­ar­svæða getur þurft að tilkynna til Skipu­lags­stofn­unar til ákvörð­unar um matskyldu skv. lögum um umhverf­ismat fram­kvæmda og áætlana. Hægt er að senda fyrir­spurn til Skipu­lags­stofn­unar um hvort tiltekin fram­kvæmd sé tilkynn­ing­ar­skyld.

Mikil­vægt er að gera ráð fyrir nægum tíma fyrir skipu­lags­vinnuna og eftir atvikum tilkynn­ingu fram­kvæmdar til ákvörð­unar um mats­skyldu. Gott samráð við undir­búning verk­efnis og vel unnin gögn samkvæmt ákvæðum viðkom­andi reglu­gerða, auka líkur á að afgreiðsla skipu­lags­áætlana og leyf­is­veit­ingar gangi hnökra­laust og hratt fyrir sig.


2.3.1Samræmi við aðalskipulag#2.3.1-samraemi-vid-adalskipulag

Í aðal­skipu­lagi sveit­ar­fé­laga er gjarnan almenn stefna um smærri fram­kvæmdir eins og áninga­staði við ferða­leiðir og í slíkum tilvikum kallar fram­kvæmd einungis á gerð deili­skipu­lags eða grennd­arkynn­ingu leyf­is­um­sóknar eftir atvikum. Þegar um er að ræða nýja hugmynd að stærri ferða­mannastað er hins­vegar líklegt að óska þurfi eftir því við sveit­ar­stjórn að aðal­skipu­lagi sé breytt. Fram­kvæmdaraðili eða land­eig­andi hefur þá samband við skipu­lags­full­trúa og kynnir hugmyndir sínar sem leggur þær fyrir skipu­lags­nefnd til skoð­unar. Sveit­ar­stjórn tekur að lokum ákvörðun um hvort og þá hvernig breyting verði kynnt á aðal­skipu­laginu.

Fyrsta skrefið við breyt­ingu á aðal­skipu­lagi er að vinna lýsingu fyrir áformin sem svo er lögð fyrir skipu­lags­nefnd til afgreiðslu og kynnt fyrir almenn­ingi og umsagnar­að­ilum. Í fram­haldinu er unnin drög að breyt­ingu á aðal­skipu­lagi (skipu­lagstil­laga) þar sem gerð er grein fyrir viðfangs­efni breyt­ing­ar­innar og sett skipu­lags­ákvæði fyrir fram­kvæmdina. Þá eru einnig metin áhrif umhverf­isáhrif skipu­lags­breyt­ing­ar­innar. Breyting á aðal­skipu­lagi tekur að jafnaði 6–10 mánuði, þar af er form­legur auglýs­inga­tími a.m.k. 6 vikur. Æski­legt er að samhliða sé unnið og kynnt deili­skipulag fyrir fram­kvæmdina, ásamt tilkynn­ingu fram­kvæmd­ar­innar til Skipu­lags­stofnun til ákvörð­unar um mats­skyldu ef við á.


2.3.2Þarf að vinna deiliskipulag?#2.3.2-tharf-ad-vinna-deiliskipulag

Fyrir stærri fram­kvæmdir þarf að vinna deili­skipulag, en fyrir einstaka fram­kvæmdir á svæðum þar sem skýr ákvæði eru fyrir hendi í aðal­skipu­lagi, til dæmis um gerð bíla­stæða, uppsetn­ingu skilta eða minni háttar mann­virkja,getur verið mögu­legt að veita leyfi til fram­kvæmda að unda­geng­inni grennd­arkynn­ingu fram­kvæmda- eða bygg­inga­leyf­is­um­sókna.

Sveit­ar­stjórn ber ábyrgð á gerð deili­skipu­lags, en land­eig­andi eða fram­kvæmdaraðili getur óskað eftir því að gerð sé tillaga að deili­skipu­lagi á sinn kostnað, eða að hann ráði sjálfur skipu­lags­ráð­gjafa sem hefur til þess rétt­indi, til að annast gerð deili­skipu­lagsins. Fyrsta skrefið er að senda lýsingu á verk­efninu til skipu­lags­full­trúa sem leggur hana fyrir skipu­lags­nefnd til afgreiðslu. Kröfur um efni lýsingar er að finna í skipu­lags­reglu­gerð. Í fram­haldi er tillaga að deili­skipu­lagi unnin. Í deili­skipu­lagi þarf að gera grein fyrir mann­virkjum, vegum, stígum og veitum og skil­málar settir um ásýnd, bygg­ing­ar­magn, örygg­ismál, lýsingu, girð­ingar, gróður og annað sem við á til að tryggja upplifun og þau gæði sem sóst er eftir. Samhliða er lagt er mat á hvaða áhrif fram­kvæmdin hefur á umhverfið. Gerð deili­skipu­lags og máls­með­ferð getur tekið nokkra mánuði, þar af er form­legur auglýs­inga­tími tillög­unnar 6 vikur.


2.3.3Er framkvæmdin tilkynningarskyld til ákvörðunar um matskyldu?#2.3.3-er-framkvaemdin-tilkynningarskyld-til-akvordunar-um-matskyldu

Í 1. viðauka laga um umhverf­ismat fram­kvæmda og áætlana eru taldar upp fram­kvæmdir sem háðar eru mati á umhverf­isáhrifum, eða þar sem kanna þarf mats­skyldu þeirra með tilkynn­ingu til Skipu­lags­stofn­unar, svokall­aðar tilkynn­inga­skyldar fram­kvæmdir. Tilkynn­ing­ar­skyldar fram­kvæmdir eru m.a. skemmti­garðar sem ná yfir a.m.k. 2 ha svæði, golf­vellir sem eru a.m.k. 18 holur, orlofs­þorp og hótel og tengdra fram­kvæmda utan þétt­býlis, með heild­ar­bygg­ing­ar­magn a.m.k. 5000 m2 og gesta­fjölda (gistirúm) a.m.k. 200.

Senda þarf tilkynn­ingu, þ.e. nánari upplýs­ingar um fram­kvæmdina og möguleg umhverf­isáhrif til Skipu­lags­stofn­unar sem í fram­haldinu tekur ákvörðun um hvort fram­kvæmdin þurfi að fara í mat á umhverf­isáhrifum. Skipu­lags­stofnun hefur 7 vikur til að afgreiða matskyldu­fyr­ir­spurn.

Nálgast má ítarlegri upplýsingar um skipulagsgerð sveitarfélaga og umhverfismat á vefsíðu Skipulagsstofnunar, www.skipulag.is

Þar er að finna leiðbeiningar um skipulagsgerð, þ.m.t. um efni lýsingar, og upplýsingar um ferli svæðis-, aðal- og deiliskipulagsgerðar.

Einnig er þar að finna leiðbeiningar um tilkynningu framkvæmdar.

Í Skipulagsvefsjá má jafnframt nálgast upplýsingar um stöðu skipulagsáætlana á öllu landinu.