Uppbygging ferðamannastaðar fellur undir skipulagslög ef þar er gert ráð fyrir mannvirkjum og framkvæmdum sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd lands. Sama á við þegar notkun svæðis eða mannvirkja er breytt eins og þegar atvinnuhúsnæði er breytt í hótel. Ef áform um ferðamannastaðinn falla undir skipulagslög þarf því að byrja á að kanna hvort þau séu í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Ef ekki þá getur sveitarstjórn kynnt tillögu að breytingu á aðalskipulaginu. Almennt þarf að gera deiliskipulag fyrir ferðamannastaði, grenndarkynning framkvæmdar- eða byggingarleyfis getur þó nægt í ákveðnum tilvikum fyrir minniháttar framkvæmdir sem samræmast ákvæðum aðalskipulags.
Stærri framkvæmdir eins og hótel í dreifbýli og framkvæmdir innan verndarsvæða getur þurft að tilkynna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matskyldu skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Hægt er að senda fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd sé tilkynningarskyld.
Mikilvægt er að gera ráð fyrir nægum tíma fyrir skipulagsvinnuna og eftir atvikum tilkynningu framkvæmdar til ákvörðunar um matsskyldu. Gott samráð við undirbúning verkefnis og vel unnin gögn samkvæmt ákvæðum viðkomandi reglugerða, auka líkur á að afgreiðsla skipulagsáætlana og leyfisveitingar gangi hnökralaust og hratt fyrir sig.
Í aðalskipulagi sveitarfélaga er gjarnan almenn stefna um smærri framkvæmdir eins og áningastaði við ferðaleiðir og í slíkum tilvikum kallar framkvæmd einungis á gerð deiliskipulags eða grenndarkynningu leyfisumsóknar eftir atvikum. Þegar um er að ræða nýja hugmynd að stærri ferðamannastað er hinsvegar líklegt að óska þurfi eftir því við sveitarstjórn að aðalskipulagi sé breytt. Framkvæmdaraðili eða landeigandi hefur þá samband við skipulagsfulltrúa og kynnir hugmyndir sínar sem leggur þær fyrir skipulagsnefnd til skoðunar. Sveitarstjórn tekur að lokum ákvörðun um hvort og þá hvernig breyting verði kynnt á aðalskipulaginu.
Fyrsta skrefið við breytingu á aðalskipulagi er að vinna lýsingu fyrir áformin sem svo er lögð fyrir skipulagsnefnd til afgreiðslu og kynnt fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Í framhaldinu er unnin drög að breytingu á aðalskipulagi (skipulagstillaga) þar sem gerð er grein fyrir viðfangsefni breytingarinnar og sett skipulagsákvæði fyrir framkvæmdina. Þá eru einnig metin áhrif umhverfisáhrif skipulagsbreytingarinnar. Breyting á aðalskipulagi tekur að jafnaði 6–10 mánuði, þar af er formlegur auglýsingatími a.m.k. 6 vikur. Æskilegt er að samhliða sé unnið og kynnt deiliskipulag fyrir framkvæmdina, ásamt tilkynningu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu ef við á.
Fyrir stærri framkvæmdir þarf að vinna deiliskipulag, en fyrir einstaka framkvæmdir á svæðum þar sem skýr ákvæði eru fyrir hendi í aðalskipulagi, til dæmis um gerð bílastæða, uppsetningu skilta eða minni háttar mannvirkja,getur verið mögulegt að veita leyfi til framkvæmda að undagenginni grenndarkynningu framkvæmda- eða byggingaleyfisumsókna.
Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð deiliskipulags, en landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því að gerð sé tillaga að deiliskipulagi á sinn kostnað, eða að hann ráði sjálfur skipulagsráðgjafa sem hefur til þess réttindi, til að annast gerð deiliskipulagsins. Fyrsta skrefið er að senda lýsingu á verkefninu til skipulagsfulltrúa sem leggur hana fyrir skipulagsnefnd til afgreiðslu. Kröfur um efni lýsingar er að finna í skipulagsreglugerð. Í framhaldi er tillaga að deiliskipulagi unnin. Í deiliskipulagi þarf að gera grein fyrir mannvirkjum, vegum, stígum og veitum og skilmálar settir um ásýnd, byggingarmagn, öryggismál, lýsingu, girðingar, gróður og annað sem við á til að tryggja upplifun og þau gæði sem sóst er eftir. Samhliða er lagt er mat á hvaða áhrif framkvæmdin hefur á umhverfið. Gerð deiliskipulags og málsmeðferð getur tekið nokkra mánuði, þar af er formlegur auglýsingatími tillögunnar 6 vikur.
Í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana eru taldar upp framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum, eða þar sem kanna þarf matsskyldu þeirra með tilkynningu til Skipulagsstofnunar, svokallaðar tilkynningaskyldar framkvæmdir. Tilkynningarskyldar framkvæmdir eru m.a. skemmtigarðar sem ná yfir a.m.k. 2 ha svæði, golfvellir sem eru a.m.k. 18 holur, orlofsþorp og hótel og tengdra framkvæmda utan þéttbýlis, með heildarbyggingarmagn a.m.k. 5000 m2 og gestafjölda (gistirúm) a.m.k. 200.
Senda þarf tilkynningu, þ.e. nánari upplýsingar um framkvæmdina og möguleg umhverfisáhrif til Skipulagsstofnunar sem í framhaldinu tekur ákvörðun um hvort framkvæmdin þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hefur 7 vikur til að afgreiða matskyldufyrirspurn.
Nálgast má ítarlegri upplýsingar um skipulagsgerð sveitarfélaga og umhverfismat á vefsíðu Skipulagsstofnunar, www.skipulag.is
Þar er að finna leiðbeiningar um skipulagsgerð, þ.m.t. um efni lýsingar, og upplýsingar um ferli svæðis-, aðal- og deiliskipulagsgerðar.
Einnig er þar að finna leiðbeiningar um tilkynningu framkvæmdar.
Í Skipulagsvefsjá má jafnframt nálgast upplýsingar um stöðu skipulagsáætlana á öllu landinu.