Fjölgun ferðamanna, aukin aðsókn að áfangastöðum í náttúru Íslands og áhersla á menningartengda ferðamennsku hefur leitt til uppbyggingar gististaða og ferðamannastaða víðs vegar um landið.
Við undirbúning fyrir nýjan eða úrbætur á fyrirliggjandi ferðamannastað, er mikilvægt að vanda til verka og hafa yfirsýn yfir hvað þarf að hafa í huga við mótun verkefnis, hvaða upplýsinga þarf að afla, sjóði sem hægt að að sækja styrki í og kröfur um skipulagsgerð og leyfisveitingar.
Þessum leiðbeiningum er ætlað að veita slíka yfirsýn auk upplýsinga um áætlaða tímalengd helstu þátta er varða gerð skipulagsáætlana og leyfisveitinga.
Leiðbeiningunum er ætlað að gefa yfirlit yfir meginþætti sem huga þarf að við undirbúning áfangastaðar, frá hugmynd að leyfi, ásamt því að vísa á fyrirliggjandi ítarefni og leiðbeiningar.
Leiðbeiningarnar eru fyrst og fremst fyrir þá sem hyggja á framkvæmdir við uppbyggingu ferðamannastaða, landeigenda, framkvæmdaaðila og ráðgjafa þeirra. Þær eiga við um allar framkvæmdir sem tengjast uppbyggingu ferðaþjónustu, t.a.m. framkvæmdir eins og hótel og tengdar framkvæmdir, en einnig minni framkvæmdir eins og gerð áningastaðar við fallegan foss, stígagerð og umgjörð um sögustað eða aðstöðu til fuglaskoðunar.