Þegar fullnaðarhönnun og teikningar liggja fyrir þarf að afla byggingarleyfis og/eða framkvæmdaleyfis hjá viðkomandi sveitarfélagi áður en byrjað er á framkvæmdum.
Upplýsingar um hvaða mannvirki eru háð byggingarleyfi er að finna í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð. Það eru t.d. nýbyggingar og niðurrif eldri bygginga, veitumannvirki, heitir pottar, skilti yfir 1,5 m2, gámar og leik og íþróttasvæði. Í einhverjum tilvikum getur verið nægjanlegt að tilkynna byggingu lítilla mannvirkja til byggingarfulltrúa.
Framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi geta verið háðar framkvæmdaleyfi sbr. reglugerð um framkvæmdaleyfi. Dæmi um framkvæmdir sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi eru t.d. breyting á landi með jarðvegi eða skógrækt, vega- og stígagerð, umferðar- og göngubrýr í dreifbýli, framkvæmdir á tjaldsvæðum o.fl.
Stundum þarf að sækja um leyfi til annarra aðila, svo sem:
Leyfisveitandi | Vegna | Lög og reglur |
---|---|---|
Minjastofnun Íslands | Framkvæmdar sem raskar fornleifum eða fer inn fyrir friðhelgað svæði þeirra. Ef áður óþekktar fornleifar finnast skal stöðva framkvæmdir og fundurinn tilkynntur til Minjastofnunar Íslands. | Lög nr. 80/2012 um menningarminjar |
Skógræktin | Fellingu skógar stærri en 0,5 ha eða hluta þeirra | Lög nr. 33/2019 um skóga og skógrækt |
Umhverfisstofnun | Framkvæmda innan friðlýstra svæða. | Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd |
Fiskistofa | Framkvæmda í og við veiðivötn (ár og stöðuvötn) og allt að 100 m frá bakka, eru háðar leyfi Fiskistofu. | Lög nr. 61/2006 um lax- og silungaveiði |
Forsætisráðuneytið | Framkvæmda innan þjóðlendna | Lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta |
Heilbrigðiseftirlit | Framkvæmda innan vatnsverndarsvæða | Lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir |
Vegagerðin | Tengingu vegar við þjóðvegakerfið. | Vegalög nr. 80/2007 |
Landeigandi | Framkvæmdar innan eignarlands |