Tilgangur verkefnisins, sem dæmi gisti- og ferðaþjónusta samhliða búskap, sérstæð náttúra sem kallar á bílastæði og aðra aðstöðu, mótun umhverfis fyrir listviðburði eða fræðslu.
Hvers konar upplifun er verið að leita eftir? Hver er markhópurinn og áætlað umfang ferðamannastaðarins? Á að byggja hann í áföngum? Eiga áformin að styrkja nærsamfélagið með einhverjum hætti?
Hvernig er landslagið og vistkerfið og hversu viðkvæmt er svæðið? Er um verndarsvæði að ræða, þ.m.t. svæði á náttúruminjaskrá, svo sem vegna náttúru- og menningarminja eða vatnsverndar? Er um hættusvæði að ræða svo sem vegna flóða eða skriðufalla eða verður gönguleið við varasamt gil? Er aðgengi að nauðsynlegum innviðum eins og veitum og vegakerfi?
Hvaða valkostir koma til álita varðandi uppbygginguna svo sem hvað hvað varðar aðkomu, bílastæði, umfang, mannvirki og ásýnd. Hvort er t.d. betra að beita efnisvali til að draga úr neikvæðum áhrifum bílastæða og þjónustubygginga á upplifun eða staðsetja þessi mannvirki í hvarfi frá útsýnisstaðnum þótt gönguleiðin verði lengri? Að hverju þarf að hyggja varðandi þolmörk náttúru eða innviða? Kalla áformin á starfsmenn og þarf að byggja aðstöðu fyrir þá?
Mælt er með að leita eftir aðstoð við gagnaöflun og greiningu, undirbúning og framfylgd þess, svo sem til skipulagsráðgjafa, arkitekta eða landslagsarkitekta, allt eftir eðli og umfangi verkefnis. Mikilvægt er að góðar hugmyndir fái að þroskast og þróast af faglegum metnaði.
Huga þarf tímanlega að gerð kostnaðaráætlunar og leita upplýsinga um mögulegar leiðir til fjármögnunar verkefnis. Hægt er að sækja um styrki til ýmissa verkefna, sem dæmi: Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til undirbúnings og framkvæmd verkefna sem tengjast náttúruvernd og uppbyggingu, öryggi ferðamanna og viðhaldi og verndun mannvirkja. Uppbyggingasjóðir viðkomandi landshluta styrkja ýmis menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun svæðisins. Minjastofnun Íslands gegnum Húsafriðunarsjóð og Fornminjasjóð, veitir styrki fyrir endurgerð mannvirkja, gerð tillagna um verndarsvæði í byggð, varðveislu og miðlunar upplýsinga um fornminjar o.fl.
Þegar áformin skýrast þarf að kortleggja við hvaða aðila þarf að hafa samráð um tiltekna þætti verkefnisins. Hafa þarf samband við skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags til að kanna stöðu skipulags og eins geta aðstæður kallað á samráð við aðra aðila eins og Minjastofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Vegagerðina, heilbrigðiseftirlit svæðisins og hagsmunaaðila í nágrenninu. Samráð getur bæði átt rétt á sér á frumstigi undirbúnings og við gerð skipulagsáætlana á síðari stigum.