Um verkefnið
Vefsíðan godarleidir.is er hugsuð sem upphafsstaður fyrir alla þá sem með einum eða öðrum hætti vinna að innviðahönnun ferðamannastaða eða huga að framkvæmdum á þeim.
Landsáætlun #landsaaetlun
Árið 2018 samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir.
Sem hluta af framkvæmd Landsáætlunar skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2018 samstarfshóp um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum. Í hópnum eru fulltrúar frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu, Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarði, Landgræðslunni, Minjastofnun, Þjóðminjasafni Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skógræktinni og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Vinna samstarfshópsins leiddi af sér fjölbreytt og ólík verkefni en helst ber að nefna þrjár handbækur sem verða aðgengilegar á vefnum godarleidir.is; Vegrúnu, Handbók um náttúrustíga og Skipulagsleiðbeiningar fyrir ferðamannastaði (aðgengileg í júní). Auk handbóka leiddi vinna samstarfshóp af sér námskeið sem tengjast skipulagi, handverki og uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum í samstarfi við Lanbúnaðarháskóla Íslands og fleiri aðila.
Góðar leiðir#godar-leidir
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fékk það hlutverk innan samstarfshópsins að leiða vinnu við að uppfæra merkingahandbók frá árinu 2011 og vera ráðgjafi fyrir önnur verkefni hópsins. Vorið 2018 þróaði Miðstöðin verkefnið Góðar leiðir vegna aukinnar aðkomu hennar að verkefnum er sneru að innviðahönnun ferðamannastaða og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Eitt af megineinkennum vinnu Góðra leiða er að efna til víðtæks samtals milli stofnana, sveitarfélaga, fagfólks og ferðaþjónustuaðila.
Með þróun Góðra leiða fléttar Miðstöð hönnunar og arkitektúrs saman ólíka þræði opinberra verkefna sem snúast um innviðahönnun ferðamannastaða samfara náttúru- og minjavernd. Eitt af þeim verkefnum sem unnið hefur verið undir hatti Góðra leiða er Vegrún, merkingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum. Einnig hefur Miðstöðin leitt verkefnið Hönnun í norrænni náttúru sem er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, Gagnvegir góðir.
Halla Helgadóttir | Framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs |
Anna María Bogadóttir | Ráðgjafi og strategískur hönnuður, arkitekt FAÍ og eigandi Úrbanistan |
Gerður Jónsdóttir | Verkefnastjóri hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs |
Handbók um náttúrustíga#handbok-um-natturustiga
Handbók um náttúrustíga er samantekt leiðbeininga um gerð gönguleiða á ferðamannastöðum/-svæðum og viðhald þeirra. Tilgangurinn er að stuðla að aukinni fagþekkingu við hönnun og framkvæmdir gönguleiða í náttúru Íslands.
Gunnar Óli Guðjónsson | Landslagsarkitekt |
Davíð Arnar Stefánsson | Sérfræðingur hjá Landgræðslunni |
Inga María Brynjarsdóttir | Myndlistarmaður |
Ábendingar#abendingar
Vegrún
Með breyttum þörfum ferðalanga og staðarhaldara þróast Vegrún einnig. Það er því eðlilegt að kerfi eins og þetta taki breytingum á komandi misserum. Kerfið var smíðað í mikilli og góðri samvinnu margra aðila og í þeim anda er kallað eftir athugasemdum og ummælum um kerfið. Betur sjá augu en auga.
Ábendingar má senda með tölvupósti á netfangið vegrun@godarleidir.is þar sem þeim verður haldið til haga og unnið úr þeim eins vel og hægt er.
Handbók um náttúrustíga
Ábendingar má senda með tölvupósti á netfangið natturustigar@godarleidir.is þar sem þeim verður haldið til haga og unnið úr þeim eins vel og hægt er.
Samstarfs- og samráðsaðilar#samstarfs-og-samradsadilar
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Þjóðgarðurinn Þingvöllum
Vatnajökulsþjóðgarður
Umhverfisstofnun
Ferðamálastofa
Landgræðslan
Skógrækt ríkisins
Minjastofnun
Þjóðminjasafn
Samband íslenskra sveitafélaga
Landmælingar Íslands
Vegagerðin
Landsbjörg
Ferðafélag Íslands
Útivist
Sjálfsbjörg